Lífeyrisgreiðslum Tryggingastofnunar inn á erlenda reikninga fjölgaði um 47% milli áranna 2017 og 2018. Þá varð fjölgun í hópi viðskiptavina með erlendan reikning um 33%.
Þetta kemur fram í ársskýrslu Tryggingastofnunar fyrir árið 2018, en um 3,5 milljarðar króna á ári eru greiddir til lífeyrisþega sem búsettir eru erlendis. Af þessum sökum er vinnsla og eftirfylgni mála hjá Tryggingastofnun orðin flóknari að því er fram kemur í ávarpi Sigríðar Lillyar Baldursdóttur, forstjóra stofnunarinnar, í ársskýrslunni.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir hún að víða um lönd hafi regluverki vegna búsetu í öðru landi verið breytt og í ljósi nýlegs álits umboðsmanns Alþingis og umræðna vetrarins þurfi að fara vel yfir íslenska löggjöf til þess að tryggja jafnræði og gagnkvæman rétt.
Félagsleg réttindi eins og uppbætur, bifreiðakostnaður, maka- og umönnunarbætur og endurhæfingarlífeyrir falla niður við flutning en misjafnar reglur gilda milli landa um félagsleg réttindi. Eftir sex mánaða búsetu erlendis ber lífeyrisþega að flytja lögheimili sitt frá Íslandi.