Vorið er hlýtt og lúpínubreiður á sunnanverðu landinu eru flestar komnar í fullan blóma, öllu fyrr en vanalega. Það sést vel á stórum bláum breiðum, svo sem við Vífilsstaðavatn í Garðabæ þar sem meðfylgjandi mynd var tekin.
Nýlegar mælingar Náttúrufræðistofnunar Íslands sýna að nú þekur lúpínan um 300 ferkílómetra lands og víða er framvindan hröð. Skiptar skoðanir eru um ágæti þessarar ágengu jurtar í íslenskri náttúru, en komið var með fræ hennar til Íslands frá Alaska árið 1944.
„Á sumum breiðum færir lúpínan sig fram um tvo til þrjá metra á ári og svo berst fræ með ám og vötnum og sáir sér víðar,“ segir Hreinn Óskarsson, sviðsstjóri hjá Skógræktinni, í Morgunblaðinu í dag.