Segir ríkið eiga næsta leik

Ólafur Ólafsson.
Ólafur Ólafsson. mbl.is/Golli

Ábyrgðin á þeirri stöðu sem er kom­in upp eft­ir dóm Mann­rétt­inda­dóm­stóls Evr­ópu í dag er rík­is­ins og það er þeirra að koma með leið til að greiða úr mál­inu. Þetta seg­ir at­hafn­ar­maður­inn Ólaf­ur Ólafs­son, sem er einn hinna fjög­urra sem dæmd­ur var í Al Thani-mál­inu. Fyrr í dag komst MDE að þeirri niður­stöðu að einn Hæsta­rétt­ar­dóm­ara sem dæmdi í mál­inu hefði ekki verið hlut­laus vegna fjöl­skyldu­tengsla hans, en eig­in­kona dóm­ar­ans var vara­formaður stjórn­ar FME þegar eft­ir­litið rann­sakaði Kaupþing og þá var son­ur hans aðallög­fræðing­ur Kaupþings og síðar starfsmaður slita­bús bank­ans.

Ólaf­ur seg­ir í sam­tali við mbl.is að það geti ekki verið hlut­verk borg­ara að standa í því að stefna rík­inu til end­urupp­töku þegar ljóst sé að brotið hafi verið á mann­rétt­ind­um fólks og það staðfest af MDE. Seg­ir hann það hlut­verk dóms­málaráðherra og for­sæt­is­ráðherra að tryggja lýðræðis­leg rétt­indi borg­ara og þeir verði að finna út hvað eigi nú að gera. „Þeir bera ábyrgðina á mál­inu,“ seg­ir hann.

„Þeir væru að dæma eig­in störf“

Málið hef­ur farið fyr­ir héraðsdóm og Hæsta­rétt, en síðar var farið fram á end­urupp­töku máls­ins. Var það vegna fyrr­nefndra fjöl­skyldu­tengsla, auk þess sem fjór­menn­ing­arn­ir töldu að brotið hefði verið gegn rétt­ind­um þeirra varðandi aðgang að gögn­um máls­ins, hler­un­um á sím­töl­um við verj­end­ur og að ekki hafi verið full­reynt að fá sj­eik al Thani til að bera vitni við dóms­haldið. End­urupp­tök­unni var hafnaði og kærðu þeir málið til MDE. Dóm­stóll­inn tók hins veg­ar ekki und­ir þess­ar aðfinnsl­ur.

Spurður hvort hann teldi rétt ef end­urupp­töku­nefnd myndi fall­ast á end­urupp­töku máls­ins eft­ir dóm MDE seg­ir Ólaf­ur að núna sé sann­ar­lega búið að dæma dóm­stól­in brot­leg­an. Hins veg­ar seg­ist hann ekki treysta Hæsta­rétti leng­ur til að dæma í mál­um sér tengd­um. Seg­ir hann flesta dóm­ar­ana sem dæmdu fyrr í mál­inu sitja áfram, utan Árna Kol­beins­son­ar, sem var sagður hafa skort hlut­leysi og Gunn­laugs Claessen, sem kom aft­ur til starfa tíma­bundið eft­ir að hafa verið kom­inn á eft­ir­laun. „Þeir væru að dæma eig­in störf,“ seg­ir Ólaf­ur og bæt­ir við að þegar ekki sé hægt að bera traust til ein­stak­linga sem eigi að vera hlut­laus­ir og fag­leg­ir þá velti hann al­var­lega fyr­ir sér hvað sé hægt að gera.

Treyst­ir ekki ís­lensk­um dóm­stól­um

„Ég hef alltaf talið að ég fengi ekki rétt­láta málsmeðferð fyr­ir ís­lensk­um dóm­stól­um. Hef alltaf talið að það þyrfti að dæma mál mitt fyr­ir er­lend­um dóm­stól­um,“ seg­ir hann. MDE tek­ur aðeins á málsmeðferðinni en ekki efn­is­atriðum máls­ins. „Það eru hin al­var­legu mál,“ seg­ir hann, en Ólaf­ur tel­ur að sér hafi verið blandað sam­an við ann­an mann í dómi Hæsta­rétt­ar.

Ólaf­ur seg­ir ekk­ert að lög­un­um, en að dóm­arn­ir séu mann­anna verk sem séu gölluð. „Það er eng­inn ágrein­ing­ur um lög­in, held­ur um efnis­tök rétt­ar­ins á viðfangs­efn­inu og hverja hann set­ur í að dæma,“ seg­ir hann. Vís­ar hann til dóms Hæsta­rétt­ar í mál­inu, en þar end­ur­skrifaði Hæstirétt­ur dóm­inn, en fjallaði ekki um fyrri dóm héraðsdóms. Seg­ir hann það gróft brot á mann­rétt­ind­um að sak­born­ing­ar hafi ekki getað varið sig gagn­vart því að nýr dóm­ur sé skrifaður.

Spurður hvort hann muni óska eft­ir end­urupp­töku máls­ins sjálf­ur ef ekk­ert komi frá rík­is­vald­inu seg­ir Ólaf­ur að hann muni nú fyrst bíða og sjá hvað ríkið ætli að gera.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka