Bókin Íslensk þjóðlög í útsetningum Guitar Islancio kemur í verslanir á föstudag. Um er að ræða safn 22 íslenskra þjóðlaga, en Guitar Islancio hefur gefið út um 60 þjóðlög á fjórum diskum til þessa.
Öll lögin eru skrifuð með nótum og ljóðin birt í heild sinni. Auk þess er töluvert mikill texti á íslensku, ensku og þýsku um þjóðlögin.
„Við höfum vandað okkur mikið við þessa útgáfu,“ segir Jón Rafnsson bassaleikari um bókina, sem JR Music gefur út og er 88 blaðsíður í stóru broti. Hann bætir við að hún eigi sér nær tuttugu ára aðdraganda. Árið 2000 hafi hann verið beðinn að hlaupa í skarðið sem sölumaður í hljóðfæraverslun einn laugardag. Þá hafi maður komið inn í búðina og verið ráðþrota. „Hann var með tvo diska Guitar Islancio, sem hann sagðist hafa keypt nýlega, og spurði hvort hægt væri að kaupa nótur þjóðlaganna á diskunum,“ rifjar Jón upp.
Sjá samtal við Jón Rafnsson í heild á baksíðu Morgunblaðsins í dag.