Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti í dag með öllum greiddum atkvæðum tillögu um að regnbogi verði varanlega málaður á götu í Reykjavík. Umhverfis- og skipulagssviði er falið að gera tillögu að staðsetningu regnbogans.
Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, fagnar samþykktinni á Facebook-síðu sinni í kvöld. Þar skrifar hún: „Í senn er þetta falleg og skemmtileg tillaga en hún er líka grjóthörð samstaða með fjölbreytileika mannlífsins og baráttu hinsegin fólks því þannig er Reykjavík. Hún er borg fyrir okkur öll. Hún er hinsegin borg.“
Gunnlaugur Bragi Björnsson, varaborgarfulltrúi Viðreisnar og formaður Hinsegin daga, flutti tillöguna fyrir hönd meirihlutans. Hann sagði það enga tilviljun að tillagan væri lögð í júnímánuði 2019, en núna síðar í mánuðinum verða 50 ár liðin frá Stonewall-uppreisninni í New York, sem markaði þáttaskil í réttindabaráttu hinsegin fólks.
Gunnlaugur sagði þó langt því frá að baráttan væri unnin. „Á hverjum degi glímir hinsegin fólk við ýmis konar áreiti og mismunun í samfélaginu. Líkamsárásir og hatursorðræða vegna kynhneigðar, kynvitundar, kyntjáningar og kyneinkenna tíðkast enn. Fullu lagalegu jafnrétti hefur ekki verið náð. Og þannig mætti áfram telja,“ sagði Gunnlaugur.