Dómsmálaráðuneytið hefur fellt úr gildi ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, sem vísaði frá kæru Vigdísar Hauksdóttur, borgarfulltrúa Miðflokksins, vegna lögmætis borgarstjórnarkosninganna Reykjavík, sem fram fóru í maí á síðasta ári. Frá þessu greinir Vigdís á Facebook-síðu sinni.
Málið snýst um notkun Reykjavíkurborgar og rannsakenda við Háskóla Íslands á persónuupplýsingum frá Þjóðskrá Íslands sem Persónuvernd gerði athugasemdir við. Vigdís kærði ákvörðun sýslumanns til dómsmálaráðuneytisins, sem kvað upp úrskuð sinn 31. maí.
Með úrskurði dómsmálaráðuneytisins er lagt fyrir sýslumann að skipa þriggja manna nefnd til þess að taka afstöðu til kæruefnisins, á grundvelli 93. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna.