Könnuðu ekki geymasýrumál vegna anna

Hælisleitandi gerðist uppvís að því á dögunum að geyma rafgeymasýru …
Hælisleitandi gerðist uppvís að því á dögunum að geyma rafgeymasýru í brúsa á Ásbrú. Lögreglan telur ólíklegt að hann hafi ætlað að skaða aðra. Mynd tengist efni óbeint. mbl.is/Eggert

Lögreglunni á Suðurnesjum var gert viðvart í gegnum þriðja aðila að fundist hefði rafgeymasýra á brúsa í Ásbrú í síðari hluta maímánaðar. Aldrei kom til þess að lögregla væri með beinum hætti kölluð til vegna málsins.

Yfirlögregluþjónn á Suðurnesjum telur ólíklegt að maðurinn hefði verið settur í gæsluvarðhald fyrir að safna sýru á brúsa án þess að hvatirnar sem þar lægju að baki væru skoðaðar með sérstökum hætti. Yfirlögregluþjónninn telur ólíklegt að hann hafi haft í hyggju að skaða aðra með henni.

Málum vatt þannig fram að þegar öryggisvörður í Ásbrú, sem er búsetuúrræði Útlendingastofnunar, gerði Útlendingastofnun viðvart um að brúsinn með rafgeymasýrunni hefði fundist, hafði starfsmaður Útlendingastofnunar samband við lögreglumann á höfuðborgarsvæðinu.

Sá lögreglumaður lét Bjarneyju S. Annelsdóttur, yfirlögregluþjón hjá Lögregluembættinu á Suðurnesjum, óformlega vita af fundinum að kvöldi dagsins sem hann varð en þar kom ekki fram hver hefði átt í hlut. Þar kom þó fram að sýran hefði verið tekin af manninum og fjarlægð.

Bjarney S. Annelsdóttir er yfirlögregluþjónn Lögreglunnar á Suðurnesjum.
Bjarney S. Annelsdóttir er yfirlögregluþjónn Lögreglunnar á Suðurnesjum. Ljósmynd/Aðsend

Bjarney segir í samtali við mbl.is að til hafi staðið að hafa frumkvæði að því að kanna málið á vettvangi morguninn eftir en að ekki hafi gefist svigrúm til þess vegna anna. Daginn eftir hafi komið upp fíkniefnamál og lögreglan hafi eins þurft að sinna fangaflutningum og öðru slíku vegna gæsluvarðhalda.

Aldrei kallað á lögreglu

Ekki hafi verið talið aðkallandi að fara á vettvang, þar sem ekki var kallað á lögreglu með beinum hætti. „Það er aldrei kallað á lögreglu í þessu máli, sem er náttúrulega eðlilegast að gera. Eðlilegt er, ef menn telja vera einhvern vera í hættu eða að eitthvað óeðlilegt sé í gangi, að hafa samband við lögreglu svo hún geti kannað málið,“ segir Bjarney.

„Við fengum sannarlega upplýsingar um málið sem við náðum ekki að vinna með á þeim tímapunkti. Við hefðum farið ef það hefði verið hringt í 112, þá hefðu verið sendir lögreglumenn uppeftir að kanna málið,“ segir Bjarney.

Óljóst um hvað maðurinn ætlaði

Í frétt Morgunblaðsins í morgun kemur fram að ekki er vitað hvað vakti fyrir manninum, að vera að safna rafgeymasýru á brúsa. „Við getum örugglega öll fabúlerað um hvað hann var að hugsa. Þetta er auðvitað ekki eðlilegt, að gera þetta. Af hverju ætti maður að vera að safna sýru á flösku?“ spyr Bjarney.

Hún telur að maðurinn hafi í örvæntingu sinni verið að berjast fyrir tilverurétti sínum. „Maður leyfir sér ímynda sér að þetta hafi verið einhver sjálfsbjargarviðleitni um að fá að vera hérna. Hann hefur vitað hvað stóð til,“ segir Bjarney og vísar til þess að brottvísun hans hafi vofað yfir. Hún bætir við að hælisleitendur séu líklegri til að skaða sjálfa sig en aðra.

Mynd úr búsetuúrræði Útlendingastofnunar á Ásbrú í Reykjanesbæ. Í því …
Mynd úr búsetuúrræði Útlendingastofnunar á Ásbrú í Reykjanesbæ. Í því húsnæði dveljast 90 karlmenn, tveir saman í herbergi. Sá sem hafði verið að safna rafgeymasýru í brúsa gerði það í aðdraganda þess að honum var vísað úr landi. Ljósmynd/Útlendingastofnun

Útlendingastofnun hafði þannig ekki áhyggjur af því að maðurinn hefði í hyggju að skaða aðra, að sögn Bjarneyjar. Lögreglan hefði ekki heldur tekið manninn í gæsluvarðhald nema rökstuddur grunur hefði verið þar um.

Málið var einfaldlega ekki talið það alvarlegt að ástæða þætti til að fylgja því eftir umsvifalaust. „Við vissum að það væri búið að fjarlægja sýruna og við vissum af fyrirhugaðri brottvísun nokkrum dögum síðar,“ segir Bjarney. Því var ekki leitast við að kanna málið betur, því fyrir lá að maðurinn var á leið úr landi. Lögreglan færi ekki að grípa inn í það ferli af þessum ástæðum, að sögn Bjarneyjar, nema síður væri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert