Auður Stefánsdóttir og Kristján Hrafn Guðmundsson hljóta nýræktarstyrki Miðstöðvar íslenskra bókmennta í ár.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, afhenti styrkina við athöfn í Gunnarshúsi, húsi Rithöfundasambandsins, í dag. Nýræktarstyrkir eru veittir árlega vegna skáldverka höfunda sem eru að stíga sín fyrstu skref á ritvellinum, óháð aldri, og til að hvetja þá til frekari dáða á þeirri braut. Átt er við skáldverk í víðri merkingu; sögur, ljóð, leikrit og fleira.
Auður hlýtur styrkinn fyrir barnabókina Í gegnum þokuna og Kristján Hrafn Guðmundsson fyrir smásagnasafnið Afkvæni. Hvor styrkur nemur 500.000 kr.
Auður er fædd árið 1983 og er með BA gráðu í íslensku og meistaragráðu í íslenskum bókmenntum frá Háskóla Íslands og kennsluréttindi á framhaldsskólastigi. Auður er íslenskukennari í framhaldsskóla og er í meistaranámi í ritlist við Háskóla Íslands meðfram kennslu.
Í umsögn bókmenntaráðgjafa um Í gegnum þokuna segir meðal annars: „Í gegnum þokuna er fantasíubók fyrir börn um baráttu góðs og ills, dauðann og lífið. Höfundur tekur á viðkvæmu málefni á fágaðan hátt og fléttar saman við spennandi atburðarás á flöktandi mörkum raunveruleika og ímyndunar. Textinn er skýr og aðgengilegur, lýsingar á handanheiminum hugmyndaríkar og margar skemmtilegar skírskotanir í hvernig er að vera krakki á Íslandi í dag.”
Kristján Hrafn er fæddur árið 1979 og er bókmenntafræðingur með kennsluréttindi og kennir íslensku, heimspekisamræðu og kvikmyndalæsi í grunnskóla. Kristján þýddi bók Haruki Murakami Það sem ég tala um þegar ég tala um hlaup og hafði umsjón með menningarumfjöllun DV 2007–2010.
Í umsögn bókmenntaráðgjafa um Afkvæni segir meðal annars: „Afkvæni er safn smásagna sem eiga það sameiginlegt að gerast í hversdagslegum íslenskum samtíma. Sögurnar eru grípandi, persónulýsingar skarpar og textinn er skrifaður á blæbrigðaríku máli. Smávægilegum atvikum er gjarnan lýst á spaugilegan hátt; andrúmsloftið er létt og leikandi en um leið tekst höfundi að miðla samspili gleði og alvöru af sérstakri næmni.”
Að vali Nýræktarstyrkhafa standa bókmenntaráðgjafar Miðstöðvar íslenskra bókmennta, sem í ár eru þau Þórdís Edda Jóhannesdóttir og Bergsteinn Sigurðsson. Þetta er í tólfta sinn sem Nýræktarstyrkjum er úthlutað, en alls hafa á sjötta tug höfunda hlotið þessa viðurkenningu frá upphafi.