Gera sýklalyf gagn við eyrnabólgum, hálsbólgum og kvefi? Öll þekkjum við kvef og aðrar sýkingar í efri loftvegum. Hálssærindi og hálsbólga getur verið hvimleið og langvinn, iðulega samtímis kvefi og nefrennsli.
Hósti dag- og næturhósti fylgir oft í kjölfarið og jafnvel eyrnaverkur. Hvað er til ráða? Er ekki hægt að lækna þetta með sýklalyfjum, er algeng spurning og skiljanleg þegar veikindin hafa staðið um lengri tíma. Hvenær er rétt eða þörf á að meðhöndla þessi einkenni með sýklalyfjum. Sjaldan eða aldrei í raun.
Hvað er þá þessi eyrnabólga? Eyrnabólga er sýking í miðeyra, bak við hljóðhimnuna, iðulega í tengslum við kvef þegar vökvi hefur safnast í miðeyranu og veldur undirþrýsting eða jafnvel bólgu. Við mikinn þrýsting getur hljóðhimnan rofnað – þá tæmist sýkingin út og verkurinn minnkar. Sýkingin er langoftast veirusýking, hvort sem er eyrnabólga, hálsbólga eða kvef og þá eru sýklalyf jú gagnslaus.
Í daglegu starfi hafa læknar klíniskar leiðbeiningar, bæði íslenskar og erlendar til að styðjast við, hvort sem vandamálið er kvef, eyrnabólgur eða annað. Nýjustu leiðbeiningar leggja áherslu á ýmis úrræði, önnur en sýklalyf. Oft duga einföld verkjalyf, til að slá á eyrnaverk. Að hækka undir höfðalaginu og nota raka, gott bað eða sturta getur bætt líðan.
Leikskólabarn sem er kvefað með hor en hitalaust og hresst þarf ekki sýklalyf, jafnvel þó sjáist útbungun á hljóðhimnu eða vökvi í miðeyra.
Við endurteknar eyrnabólgur, hvort sem þarf sýklalyf eða ekki, eða langvinnan vökva í miðeyra, er skoðað hvort þörf sé á öðrum úrræðum til dæmis ástungu eða rörum og börnum þá vísað á háls-, nef- og eyrnalækna til mats.
Barn undir eins árs aldri með eyrnabólgu þarf yfirleitt sýklalyf, einnig ef barnið er mikið veikt með háan hita eða mikil einkenni. Við svona veikindi er sjálfsagt að leita læknis.
Á öllum heilsugæslustöðvum er opin dagvakt þar sem hjúkrunarfræðingur tekur á móti erindum, hvort sem er í síma eða viðtal á stofu, og ef þörf krefur kemur læknir og skoðar. Þannig er hægt að komast að samdægurs, fá ráð og eftir þörfum skoðun, góður valkostur fyrir foreldra veikra barna. Jafnvel stutt innlit næsta dag til meta gang veikindanna, er bólgan að hjaðna eða versna, er þörf á annarri meðferð eða er allt á réttri leið. Reynslan sýnir að sjaldnast er þörf á meiri meðferð.
Eins og hjá börnum er sjálfsagt fyrir fullorðna að nota ýmis úrræði til að bæta líðan, nefúði hvort sem er saltvatnslaus til skolunar, nefúði sem dregur úr þrota í nefslímhúð er í lagi að nota í stuttan tíma og einnig er til bólgueyðandi nefúði, sterar til staðbundinnar notkunar. Allt þetta getur bætt líðan og hjálpað. Raki, gufa, drekka vel og önnur einkennameðferð skiptir einnig máli.
Í dag er lögð mikil áhersla á að draga úr notkun sýklalyfja og hefur náðst mikill árangur en betur má ef duga skal. Með skynsamlegri notkun sýklalyfja er hægt að minnka sýklalyfjaónæmi. Við viljum tryggja að hafa góð lyf þegar á þarf að halda, að hafa aðgang að sýklalyfjum sem virka þegar þörf krefur.
Sigríður Dóra Magnúsdóttir framkvæmdastjóri lækninga, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins