„Við förum nú í að þróa hugmyndir og klárum að vinna þetta í lok ársins. Hugmyndin er að brunnlokin verði frumsýnd á Listahátíð í Reykjavík sumarið 2020,“ segir listakonan Elsa Jónsdóttir.
Á dögunum fékk Elsa ásamt Birni Loka Björnssyni, en saman kalla þau sig Krot og krass, tveggja milljón króna styrk úr Miðborgarsjóði til að framleiða mynstur á brunnlok í miðborg Reykjavíkur, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
„Verkefnið snýst um að framleiða nýtt útlit á járnlok þar sem unnið er með sögufræga staði, ljóð og sögur, flóru Íslands, listaverk, frímerki og leiðarvísa svo eitthvað sé nefnt. Verkefnið á sér fyrirmynd m.a. í Japan en unnið verður með íslenska sögu. Með verkefninu er ætlað að vekja athygli á áhugaverðum stöðum í miðborginni á jákvæða og skapandi vegu, bæði í borgarlandinu og einnig sem myndbirting á alþjóðavettvangi,“ segir í umfjöllun um styrkveitinguna.