Banaslysið hörmulega við höfnina á Árskógssandi í nóvember árið 2017, er þriggja manna fjölskylda búsett í Hrísey lést eftir að bifreið þeirra fór fram af bryggjukantinum, orsakaðist sennilega af því að ökumaður bílsins var með skerta meðvitund af óþekktum orsökum. Þá var bryggjukanturinn lágur og varnarbúnaður ekki nægilegur til að koma í veg fyrir að keyrt væri út af bryggjusporðinum.
Þetta kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa, sem birt var í dag. Rannsóknarnefndin beinir því til Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins að endurskoða reglugerð um slysavarnir og öryggisbúnað í höfnum til að tryggja öryggi vegfarenda á hafnarsvæðum, sérstaklega þar sem almenningur á erindi.
„Nefndin telur rétt að gerðar séu auknar kröfur til ferjuhafna til að tryggja öryggi vegfarenda vegna umferðar sem fer um slíkar hafnir. Ekki er sjálfgefið að heimila frjálsan akstur bifreiða að ferjum. Skipuleggja þarf umferð bifreiða við bryggjur með öruggum hætti og flutning farþega og farangurs að ferjum þegar það á við,“ segir í skýrslunni.
Í kjölfar slyssins á Árskógssandi var ráðist í aðgerðir til þess að bæta öryggi hafnarinnar þar sem bíllinn fór fram af og beinir rannsóknarnefndin því til annarra hafnaryfirvalda að taka til athugunar hvort gera skuli frekari ráðstafanir til að tryggja öryggi vegfarenda á þeirra hafnarsvæðum, en í núverandi reglugerð segir að kantbitar þurfi að vera a.m.k. 20 sentimetra háir, en óvíst þykir hvort margar eldri hafnir uppfylli þau skilyrði.
Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar kemur fram að veðrið hafi verið frekar slæmt er slysið átti sér stað, það var slydduhríð og frost. Vitni á staðnum lýstu því að bifreiðinni hefði verið ekið án áberandi hraðabreytinga beint út bryggjuna og að ekki hafi kviknað á hemlaljósum áður en bifreiðin fór fram af bryggjunni.
„Ekki var óvenjulegt að ökumenn ækju út á bryggjuna að landganginum við ferjuna þegar til stóð að afferma bifreiðar eða hleypa út farþegum áður en lagt var í bifreiðastæði skammt frá bryggjunni. Þar sem tveir farþegar voru í bifreiðinni og farmur er sennilegt að ökumaður hafi ekið inn á bryggjuna í þeim tilgangi,“ segir í skýrslunni.
Fáu er þó hægt að slá föstu um það af hverju bíllinn endaði í sjónum. Ökumaðurinn var heilsuhraustur, ekki undir áhrifum áfengis né lyfja og engin „afgerandi merki“ komu fram við rannsókn málsins sem sýndu fram á meðvitundarleysi eða veikindi ökumannsins sem gætu hafa orsakað slysið.
Þá kom ekkert fram í viðtölum lögreglu við ættingja og vini um persónulega hagi ökumanns eða farþega sem varpað gæti ljósi á orsakir slyssins.
Sérfræðingar sem rannsakendur vísa til segja að þó sé ekki útilokað að um skyndileg veikindi hafi verið að ræða, en heilbrigðir einstaklingar geta fengið flogaköst eða önnur skyndileg veikindi án þess að þau skilji eftir sig ummerki sem hægt er að greina í krufningu, samkvæmt réttarmeinafræðingi.