Allir fulltrúar í þjóðleikhúsráði hafa sagt sig úr ráðinu. Var það gert svo umsóknarferlið um starf þjóðleikhússtjóra sé hafið yfir allan vafa um mögulegt vanhæfi einstakra fulltrúa í ráðinu. Frá þessu er greint á vef Stjórnarráðsins.
Nýtt þjóðleikhúsráð mun starfa frá 1. júlí og mun það meta hæfi umsækjenda og starfa með þjóðleikhússtjóra til næstu fjögurra ára.
Þjóðleikhúsráð er stjórnarnefnd Þjóðleikhússins skipað af mennta- og menningarmálaráðherra, í því sitja fimm fulltrúar, frá Félagi íslenskra leikara, Félagi leikstjóra á Íslandi og þrír án tilnefningar. Ráðherra skipar formann og varaformann úr hópi ráðsmanna.
Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins þakkar mennta- og menningarmálaráðherra fráfarandi þjóðleikhúsráði fyrir vel unnin störf.