Assange treysti Sigga hakkara

Siggi hakkari var dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir kynferðisbrot …
Siggi hakkari var dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn níu drengjum árið 2015. mbl.is/Árni Sæberg

„Margir í tengslum við samtökin segja að við höfum verið eins og feðgar,“ segir Sigurður Ingi Þórðarson, betur þekktur sem Siggi hakkari, í samtali við hol­lenska rík­is­sjón­varpið NOS um tengsl sín við Julian Assange, stofnanda Wikileaks.

Krist­inn Hrafns­son, rit­stjóri Wiki­leaks, greindi frá því í gær að hann hefði sent rík­is­lög­reglu­stjóra, rík­is­sak­sókn­ara og þrem­ur ráðherr­um fyr­ir­spurn um aðstoð yf­ir­valda við banda­ríska lög­reglu­menn og sak­sókn­ara þar í landi vegna rann­sókn­ar á Assange.

Í bréfinu segir að tveir fulltrúar bandarísku embættanna hafi komið hingað til lands 6. maí þar sem rætt var við Sigurð um að hann bæri vitni gegn því að hann hlyti friðhelgi. Sigurður fór síðan vestur um haf síðustu vikuna í maí. Fram kemur í frétt NOS að fulltrúi FBI sem kom til Reykjavíkur, Megan Brown, sé sú sem leiði rannsóknina gegn Assange. Nú­ver­andi ákær­ur fela í sér há­marks­refs­ingu upp á 175 ára fang­elsi.

Assange sá eitthvað í Sigurði

„Ég veit ekki af hverju hann kom fram við mig eins og hann gerði en ég býst við því að það hafi verið af því að hann sá eitthvað í mér sem hann sá í sjálfum sér,“ segir Sigurður um samband sitt og Assange.

Það samstarf endaði ekki vel. Sigurður starfaði sem sjálfboðaliði hjá Wikileaks í nokkra mánuði 2010 til 2011. „Hann stal meðal ann­ars 50 þúsund doll­ur­um af Wiki­leaks,“ sagði Kristinn við mbl.is í gær.

Sigurður var dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn níu drengjum árið 2015 og hefur auk þess verið dæmdur fyrir þjófabrot, fjársvik og ósannindi. 

Fréttamaður NOS segir að Assange hafi treyst Sigurði.

„Það mætti segja það,“ segir Sigurður og bætir við aðspurður að hann hafi enga hugmynd um af hverju Assange gerði það. Árið 2011 var FBI að rannsaka Wikileaks og Sigurður hélt að fylgst væri með honum. Hann ákvað því að bjarga eigin skinni og ákvað að aðstoða FBI. Sigurður heyrði ekkert í FBI fyrr en í apríl á þessu ári.

Julian Assange.
Julian Assange. AFP

Fékk símtal frá lögreglunni

„Ég fékk símtal frá lögreglunni á Íslandi. Þar var ég spurður hvort ég hefði áhuga á að ræða við FBI og svara spurningum þeirra,“ segir Sigurður og heldur áfram:

„Ég fór til Washington á mánudaginn í síðustu viku. Þeir spurðu mig ekkert um Chelsea Manning,“ segir Sigurður en hann segist eingöngu hafa verið spurður um starf sitt hjá Wikileaks, sem hakkari.

Sigurður segir FBI hafa ótrúlega mikið af gögnum. Hann telur að 98% skipti engu máli en „hitt er örugglega það sem þeir munu nota gegn honum [Assange].“

Kristinn Hrafnsson sagði í samtali við mbl.is í gær að menn gætu sjálfir dæmt um það að Bandaríkjamenn leiti aðstoðar hjá Sigurði í málinu gegn Assange. 

„Menn geta dæmt hvort það er sér­lega trú­verðugur vitn­is­b­urður sem kem­ur frá ein­stak­lingi sem, sam­kvæmt dóms­kjöl­um, er með siðblindu eða snert af siðblindu í það minnsta og er dæmd­ur fyr­ir al­var­leg kyn­ferðis­brot gegn níu drengj­um,“ sagði Krist­inn.

Umfjöllun NOS má nálgast hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert