Ástandið verra en talið var í fyrstu

Vesturálma skólans, Vesturland. Þar er ástandið verra en talið var. …
Vesturálma skólans, Vesturland. Þar er ástandið verra en talið var. Þakið var lekt og skemmt. Í upphafi átti aðeins að fjarlægja efra borð þaksins og loftið að innanverðu en hugsanlega þarf að fjarlægja þakið í heild og skipta því út. mbl.is/Hallur Már

Ástand þaksins í vesturálmu Fossvogsskóla er verra en áður var talið. Nýjar upplýsingar hafa hugsanlega í för með sér að skipta þarf um þak í heild sinni, en ekki að hluta eins og talið var. Þetta gæti sett skólastarf, sem átti að hefjast í skólanum í ágúst, í uppnám.

Skólanum var lokað í mars vegna raka- og mygluskemmda. Nemendur sóttu skólann í öðru húsnæði það sem eftir lifði skólaárs.

Í pósti frá skólastjóra Fossvogsskóla til foreldra segir: „Í ljós hefur komið að ástands þaks í Vesturlandi er mun verra en fyrstu athuganir leiddu ljós. Þaksperrur yfir miðrými Vesturlands eru skemmdar vegna raka og þarf að fjarlægja þær. Þetta þýðir að framkvæmdir í þessum hluta skólahúsnæðisins tefjast fram á haustið.“

Skólanum var lokað í mars vegna skemmdanna. Hann átti að …
Skólanum var lokað í mars vegna skemmdanna. Hann átti að opna aftur í ágúst. mbl.is/Hallur Már

Nemendur skólans hafa frá 19. mars á þessu ári stundað nám í húsnæði KSÍ og Þróttar í Laugardalnum. Í lok þessa skólaárs stóð til að tæma það húsnæði og yfirgefa enda skyldi mætt til skóla aftur í húsnæði Fossvogsskóla í haust en nú er óljóst hvort það verði unnt.

mbl.is fór í skoðunarferð um Fossvogsskóla í lok mánaðar en þá var hljóðið í mönnum enn á þá leið að kennsla gæti hafist aftur í ágúst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert