Birkiplanta fannst í Goðalandi á Útigönguhöfða í 660-680 metra hæð nýverið. Þetta er nýtt Íslandsmet því aldrei áður hefur lifandi birkiplanta fundist í slíkri hæð yfir sjávarmáli. Fyrri methafinn er birki sem vex í 624 metra hæð yfir sjó í Stórahvammi í Austurdal í Skagafirði.
Hreinn Óskarsson, sviðstjóri hjá Skógræktinni, gekk fram á plöntuna ásamt syni sínum Erni Hreinssyni um helgina í Goðalandi. Goðaland er svæðið þegar komið er að norðanverðu niður af Fimmvörðuhálsi en Goðaland er einkum þekkt fyrir Bása.
„Loftslagið er hlýrra og því nær birki að vaxa ofar í hlíðum dala og fjalla jafnvel á hálendinu. Þetta er glöggt dæmi um loftslagsbreytingar sem eru tilkomnar af mannavöldum,“ segir Hreinn í samtali við mbl.is.
Plantan sjálf er líklega 15-20 ára gömul en nákvæm aldursgreining liggur ekki fyrir að svo stöddu. Þrátt fyrir að hún sé nokkuð illa útleikin og rétt að byrja að laufgast þá fer ekki á milli mála að hún er á lífi. „Hún lítur út eins og skilgreining er á að vera veðurbarin,“ segir hann og brosir. Birkið er tætt eftir veturinn en óvenju snjólétt var í vetur og því fékk hún lítið skjól undir þykku snjólagi. Óvæginn vindurinn fékk því að hamra á birkinu sem hefur fram að þessu staðið af sér vetrar volkið.
Hreinn telur góðar líkur á að fleiri birkiplöntur finnist í svipaðri hæð vegna hlýnunar. Góðar líkur eru á því að þær finnist í Skaftafelli en enn sem komið er hafa þær ekki fundist. „Við erum ekki búin að leita af okkur allan grun,“ segir hann.
Fyrst var greint frá nýju Íslandsmeti á vef skógræktar.