Ágreiningur er innan lögreglunnar um starfsemi sérsveitar ríkislögreglustjóra og bílamiðstöðvar sama embættis. Meðal annars hafa lögreglufélög á Norðurlandi gagnrýnt opinberlega að ekki séu staðsettir nógu margir sérsveitarmenn á Akureyri.
Ágreiningurinn hefur meðal annars birst í því að hópur sérsveitarmanna sendi dómsmálaráðuneytinu bréf þar sem kvartað er yfir ýmsu í starfsemi sveitarinnar og hjá embættinu. Jón F. Bjartmarz hefur sent öllum sérsveitarmönnum bréf þar sem sagt er frá afstöðu embættisins en hann hefur áður átt fund með þeim um málin. Jón var í gær ekki reiðubúinn til að veita Morgunblaðinu upplýsingar um efni bréfsins þegar eftir því var leitað.
Jón segir í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag að ekki séu lengur faglegar forsendur fyrir því að dreifa sérsveitarmönnum um landið vegna þess að búið sé að efla almennu lögregluna svo að hún ráði fullkomlega við stærri og erfiðari verkefni. Það eigi við um Akureyri. Þar er nú einn sérsveitarmaður en þeir voru fjórir þegar mest var. Núverandi sérsveitarmenn í Reykjavík eru ekki tilbúnir að flytja norður en Jón segir þó að ekki standi til að loka starfsstöðinni þar.