Mikil aðsókn í kennaranám

Háskóli Íslands.
Háskóli Íslands. mbl.is/Ómar Óskarsson

Umsóknum í grunnskólakennaranám fjölgar um 45% milli ára og umsóknum í meistaranám í leikskólafræðum um 25%. Tölurnar eru settar í samhengi við þjóðarátak þar sem reynt er að laða fólk í kennaranám hérlendis.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá menntavísindasviði Háskóla íslands.

Í grunnnám í leikskólakennarafræðum er fjöldi umsókna svipaður og í fyrra. Bent er á að frá 2016-2018 fjölgaði umsóknum í leikskólakennaranám um 86%

„Það er veruleg ánægjulegt að sjá þessa auknu aðsókn í þetta mikilvæga nám, sérstaklega í ljósi þess átaks sem staðið hefur yfir með stjórnvöldum varðandi það að laða fólk í kennaranám. Við hefðum að óbreyttu horft fram á kennaraskort hérlendis á næstu árum,“ er haft eftir Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands.  

Kolbrún Þorbjörg Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs tekur í svipaðan streng. „Það er gríðarlega ánægjulegt að sjá þessa aukningu í kennaranám og blæs okkur á Menntavísindasviði Háskóla Íslands mikinn eldmóð í brjóst. Ég er handviss um að þessa sókn megi rekja til mikillar samstöðu í samfélaginu um að efla starfsumhverfi skóla og hefja kennarastarfið til þeirrar virðingar sem það á skilið,“ er haft eftir henni.

Kolbrún þakkar þessa auknu aðsókn einnig sértækum aðgerðum stjórnvalda vegna kennaraskorts sem felast í námsstyrkjum til kennaranema og launuðu starfsnámi á lokaári námsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert