Þrátt fyrir að enn sé aðeins um þriðjungur herbergja kominn í notkun þá er nýtt sjúkrahótel Landspítalans (LSH) strax farið að hafa jákvæð áhrif á rekstur LSH og stjórnendur hafa þegar fundið fyrir þeirri hjálp sem starfsemi spítalans fær af nýja hótelinu. Þetta kemur fram í forstjórapistli Páls Matthíassonar, forstjóra LSH.
„Sjúklingum er bæði gert mögulegt að útskrifast fyrr af legudeildum spítalans en það sem meiru skiptir, sérstaklega fyrir fólk af landsbyggðinni, er möguleiki sjúklinga og aðstandenda þeirra til að sækja heilbrigðisþjónustu frá sjúkrahótelinu, í öruggu og aðlaðandi umhverfi,“ segir m.a. í bréfinu.
Páll Matthíasson er einnig ánægður með niðurstöður úr spurningavagni Gallups um viðhorf almennings til stofnana. Segir m.a. í ofannefndum pistli að traust almennings til Landspítala mælist nú 80%, og því sé spítalinn á meðal efstu stofnana, ásamt Landhelgisgæslunni, embætti forseta Íslands og lögreglunni.