Nefnd um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu óskar eftir umsögnum um drög að skilgreiningu marka þjóðgarðsins, áherslur um skiptingu landsvæða í verndarflokka og umfjöllun um aðkomuleiðir og þjónustumiðstöðvar. Frestur til að skila umsögnum er til 30. júní.
Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins.
Þar kemur fram að nefndin leggur til að almenn mörk miðhálendisþjóðgarðs miðist við þjóðlendur og þegar friðlýst svæði innan miðhálendisins.
Í tillögu nefndarinnar er gert ráð fyrir að mismunandi verndarflokkar gildi um mismunandi svæði innan miðhálendisþjóðgarðs. Einnig telur nefndin að hægt sé að leggja til að orkuvinnslusvæði sem þegar eru í nýtingu á svæðinu verði innan miðhálendisþjóðgarðs.
Nefndin flokkar mögulegar þjónustumiðstöðvar miðhálendisþjóðgarðs í þrjá flokka eftir umfangi og hlutverki miðstöðvanna, þ.e. svokallaðar þjóðgarðsgáttir, hálendismiðstöðvar og þjónustustaði á hálendinu og setur fram kort sem sýnir tillögur að staðsetningum fyrstu tveggja flokkanna.
Tillögurnar byggja á stöðum sem nefndir voru af hagaðilum á fundarferð nefndarinnar um landið.