Samfelld bílalest nær nú frá Hveragerði til Selfoss og er þjóðvegurinn svo gott sem stíflaður. Samkvæmt ferðalangi sem mbl.is náði tali af mjakast umferðin rétt áfram frá hringtorginu við Hveragerði og að Ölfusárbrúnni.
Fyrsta stóra ferðahelgin, hvítasunnuhelgin, fer því að stað með hvelli. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi hefur mikill erill verið á Selfossi og næsta nágrenni en allt farið vel fram. Umferðarþungann má einna helst rekja til bæjarhátíðarinnar Kótelettunnar sem fram fer á Selfossi um helgina.
„Það er bara búið að vera svoleiðis í allan dag. Stemningin er frábær og ég hugsa að það séu hátt í 20.000 manns búnir að koma hingað í dag,“ segir Einar Björnsson, einn skipuleggjenda Kótelettunnar.
Þetta er í tíunda sinn sem hátíðin er haldin og segir Einar tíu ára afmælið, góða veðrið og langa helgi allt útskýra vinsældir hátíðarinnar í ár. Hátíðin, sem er blanda af fjölskylduhátíð og tónleikum, fór af stað með trompi í gær og fjörið heldur áfram í kvöld með grillveislum í görðum í bænum og verða verðlaun veitt fyrir flottustu grillveisluna í heimahúsi. „Verðlaunin verða afhent með látum, við spilum 1,2, Selfoss með sírenuvæli og Love Gúrú sem er holdgervingur hátíðarinnar, íslenski Meat Loaf.“
Heljarinnar tónleikar hefjast svo á miðnætti þegar Páll Óskar stígur á svið. Auk hans munu Stuðlabandið, Björgvin Halldórsson, Stefán Hilmarsson og Friðrik Dór troða upp. „Það verður pásulaust alveg frá miðnætti til fimm, bara stanslaust stuð,“ segir Einar. Dagskráin heldur svo áfram á morgun.