„Ekki fara þangað, ekki anda að þér þarna,“ skrifar Rússinn Alexander Tikhomirov, sem olli talsverðu tjóni með utanvegaakstri skammt frá jarðböðunum við Mývatn á dögunum, á Instagram-reikningi sínum.
Þetta skrifar Tikhomirov við mynd á Instagram-síðu sinni þar sem hann sést hoppa af kletti við Dyrhólaey á Suðurlandi.
„Það er ómögulegt að lifa,“ skrifar Tikhomirov þar sem hann virðist vísa til reglna sem gildi hér á landi. Hann bætir við að til sé fólk sem geti ekki lifað án þess að brjóta reglurnar.
View this post on InstagramA post shared by Alexander Tikhomirov (@sashatikhomirov) on Jun 7, 2019 at 11:21am PDT
Ekki er hægt að segja til um nákvæmlega hvenær sólarhrings myndin var tekin en Umhverfisstofnun greindi frá því í byrjun maí að ákveðið hefði verið að takmarka umferð um Dyrhólaey 3. maí til 25. júní milli kl. 9:00 og 19:00.
Þá yrði umferð almennings einvörðungu heimil um Lágey og Háey eftir merktum göngustígum og akvegum. Á næturnar er friðlandið lokað frá 19:00 til 9:00. Ákvörðun var tekin í kjölfar skýrslu fuglafræðings á árlegri athugun á stöðu fuglalífi í Dyrhólaey og með tilliti til verndunar fuglalífs á varptíma.
Tikhomirov hefur áður sagt frá reynslu sinni af því að honum og ferðafélögum hans hafi mætt ískalt viðmót heimamanna eftir utanvegaaksturinn við Mývatn á dögunum. Hann var sektaður um 450 þúsund krónur fyrir athæfið.