Björgunarsveitir í Árnessýslu voru kallaðar út um fimmleytið í dag vegna einstaklings sem hafði fótbrotnað efst í Reykjadalnum, nálægt Ölkelduhálsi.
Óskað var eftir aðstoð björgunarsveita þar sem óhappið átti sér stað ofarlega í dalnum. Samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörg fóru tveir hópar björgunarsveitafólks frá Hveragerði og Selfossi á sexhjóli og aðstoðuðu sjúkraflutningamenn við að flytja viðkomandi að sjúkrabíl.
Vel gekk að koma sjúklingnum á sexhjólið og verður hann fluttur að sjúkrabíl sem staðsettur er á Ölkelduhálsi.