„Þetta er vandmeðfarið en útgangspunkturinn er almennt sá að upptökur úr öryggismyndavélum, sem sýna fram á refsiverðan verknað, er einungis heimilt að afhenda lögreglu,“ segir Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar.
Borið hefur á því að einstaklingar deili upptökum úr öryggismyndavélum sínum á samfélagsmiðlum, svo sem þar sem óskað er eftir hjálp við að bera kennsl á reiðhjólaþjófa.
„Við búum í samfélagi þar sem lögreglan framfylgir þessum málum og með þessu eru einstaklingar að taka lögin í sínar hendur,“ segir Helga og bætir því við að í alvarlegri málum hafi lögreglan bent á á birting myndefnis geti gert það að verkum að aðilar fari í felur og torveldi þannig rannsókn málsins.
Eftirlit Persónuverndar snýr helst að fyrirtækjum, stofnunum og sveitarfélögum. „Þegar borgararnir eru í samskiptum sín á milli er þetta oft eitthvað sem fellur utan gildissviðs persónuverndarlaga, en þegar fjöldi í hópum á samfélagsmiðlum er farinn að skipta hundruðum þá er þetta orðin opinber birting.“
Hjá Persónuvernd liggi þó ekki fyrir nákvæmlega hversu stór hópurinn þarf að vera til þess að birting teljist opinber, en bendir Helga á að dómar hafi fallið í málum þar sem efni var deilt með um hundrað manna hóp á Facebook og taldist opinber.
„Maður hefur auðvitað skilning á þessu en strangt til tekið má ekki gera þetta,“ segir Helga og að að skoða þurfi í hveju tilviki fyrir sig hvort Persónuvernd taki málið fyrir.
„Einstaklingar verða ábyrgðaraðilar samkvæmt persónuverndarlögum ef þeir fara út fyrir vinnslu til einkanota, til að mynda með opinberri birtingu fyrir ótilgreindum fjölda fólks.“