„Er fíkn, en maður vill alltaf meira“

Guðberg og Bergur á fyrri hluta leiðarinnar þegar þeir voru …
Guðberg og Bergur á fyrri hluta leiðarinnar þegar þeir voru enn þá báðir í fullu fjöri. Ljósmynd/Dave Strydom

Rúmlega 320 til 550 kílómetra hjólakeppni á malarvegum í miðríkjum Bandaríkjanna í sól og allt að 40°C hita og allt að 30 klukkustundir á hnakknum. Skert hugarástand, magaógleði og heilt hlaðborð af alls konar öðru rugli. Þetta er í raun það sem í boði er í hjólakeppninni Dirty Kanza sem ellefu Íslendingar tóku þátt í síðustu helgi. Hvað fær fólk til að leggja svona á sig og hvernig fer það að því að klára alla leið? mbl.is ræddi við Berg Benediktsson sem tókst á við 550 kílómetra vegalengdina og kláraði.

Fyrir tæplega áratug fannst Bergi Bláa lóns þrautin fjallahjólamótið nánast óyfirstíganleg áskorun. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og hann hefur bæði keppt hér á landi sem og erlendis í fjölda keppna. Síðustu tvö ár hefur hann svo fært sig yfir í lengri og lengri hjólakeppnir meða aðaláherslu á malarkeppnir. Um síðustu helgi var hann ásamt hópi Íslendinga í Kansas í Bandaríkjunum og tók þar þátt í Dirty Kanza-malarhjólakeppninni. Meðan flestir fara 200 mílur, eða rúmlega 320 kílómetra og þykir afrek út af fyrir sig, kláraði Bergur lengri útgáfuna, Dirty Kanza XL, sem var 350 mílur, eða um 550 kílómetrar. Það tók hann rúmlega 30 klukkustundir að ljúka því af. Í samtali við mbl.is segir Bergur að mestu skipti að hafa hausinn í lagi til að klára keppnir sem þessar.

Aðalkeppnin í Mekka malarhjólreiða

Undanfarin ár hafa malarhjólreiðar komið á sjónarsviðið í hjólaheiminum og notið nokkurra vinsælda, sérstaklega í Bandaríkjunum. Það er einmitt í miðríkjum Bandaríkjanna, í ríkinu Kansas, þar sem þekktasta slíka keppnin er haldin, en Dirty Kanza hefur verið haldin í þrettán skipti.

Bergur er einn af starfsmönnum Lauf cycling, en það er íslenskt hjólafyrirtæki sem hefur sérhæft sig í malarhjólum. Í tengslum við vinnuna ferðast hann og samstarfsfólk hans víða og taka þau reglulega þátt í malarhjólakeppnum víða um heim. Samstarfsmaður hans, Guðberg Björnsson, fór fyrstur í þessa keppni fyrir tveimur árum, en í fyrra fjölmennti svo skrifstofan og tóku allir þátt. Tókst þeim Bergi og Guðberg að klára og fóru þeir strax að horfa til næstu áskorunar.

Guðberg og Bergur við upphaf keppninnar á föstudaginn fyrir viku. …
Guðberg og Bergur við upphaf keppninnar á föstudaginn fyrir viku. Þeir voru meðal 80 keppenda sem voru handvaldir til þátttöku. Ljósmynd/Dave Strydom

Voru handvaldir til þátttöku

Í fyrra var í fyrsta skipti boðið upp á XL-keppnina, en aðstandendur keppninnar völdu þar fólk inn til þátttöku. Bergur segir að þeir hafi strax farið að horfa í þessa átt og óskað eftir að fá að taka þátt. Þeir hafi fengið boð um þátttöku ásamt 78 öðrum. Guðberg og Bergur voru þó ekki einu Íslendingarnir sem tóku þátt í Dirty Kanza í ár, því þrír starfsmenn Laufs til viðbótar tóku þátt, þau Halla Jónsdóttir, Benedikt Skúlason og Bjarni Lúðvíksson. Þá voru Ingvar Ómarsson og Hafsteinn Ægir Geirsson, margfaldir Íslandsmeistarar í hjólreiðum, einnig með, sem og Sigurður Stefánsson, Mörður Finnbogason, Kjartan Þórólfsson og Jóhann Friðriksson.

En hvernig æfir fólk fyrir svona svaðalega þrekraun? „Undirbúningurinn er fyrst og fremst í hausnum. Að hafa trú á sjálfum sér og gefast ekki upp. Svo hjálpar alveg að hjóla svolítið á undan,“ segir Bergur og hlær. Líkamlega þjálfunin hjá Bergi var hins vegar ekki alveg eins og hann hafði séð fyrir sér. Í fyrsta lagi lengi hann í veseni með hnéð í haust og gat ekki byrjað að hjóla fyrr en í janúar. Þá hafi hann unnið mikið að því að taka íbúðina sína í gegn. „Einu hjólatúrarnir undanfarið hafa verið á um tveggja vikna fresti í keppnum erlendis eða langir túrar heima á möl sem hafa verið frá 100 í 200 kílómetra,“ segir hann, en eins og að framan greinir tekur Bergur reglulega þátt í erlendum mótum í tengslum við vinnuna.

Ekki er óalgengt að sjá hornin hjá Bergi, enda eins …
Ekki er óalgengt að sjá hornin hjá Bergi, enda eins konar vörumerki hjá honum. Ljósmynd/Dave Strydom

Ruglið hefur stigmagnast undanfarin ár

Bergur segir að hann hafi byrjað að keppa í hjólreiðum í kringum 2010. „Svo hefur þetta verið að stigmagnast, vegalengdirnar og allt ruglið í kringum þetta,“ segir hann, en aðeins 2 ár eru síðan hann byrjaði almennilega í malarhjólreiðum og fór að horfa til þessara mjög löngu keppna, en þar er verið að tala um yfir 200 kílómetra.  „Þetta er fíkn, en maður vill alltaf meira,“ segir hann glettinn og bætir við að í raun séu ekkert mjög mörg ár síðan Bláa lóns þrautin hafi verið honum næstum óyfirstíganleg.

Dirty Kanza keppnin er sem fyrr segir líklega þekktasta malarhjólakeppni heims og segir Bergur að það sé allskonar fólk sem mæti þar. Í raun líkist þetta fyrrnefndri Bláa lóns þraut að því leyti að þetta sé ekki bara keppnishjólreiðafólk, heldur fullt af fólki sem hafi sett sér persónuleg markmið og taki jafnvel ekki þátt í öðrum keppnum.

„Þetta snýst um að finna mörkin

Spurður um ástæðu þess að hann hafi ákveðið að taka þátt í Dirty Kanza stendur ekki á svörum hjá Bergi. „Þetta snýst um að finna mörkin. Bæði í 200 mílna og 350 mílna keppnunum. Þetta gengur ekkert endilega út á að fara hratt og keppa um sæti, heldur að kynnast sjálfum sér betur og að klára.“

Landslagið getur verið nokkuð einsleitt í miðríkjunum í Bandaríkjunum. Akrar, …
Landslagið getur verið nokkuð einsleitt í miðríkjunum í Bandaríkjunum. Akrar, beinir vegir og 90 gráðu beygjur. Ljósmynd/Dave Strydom

Þegar leitað er að Kansas á netinu koma upp myndir af ökrum og ræktarlandi eins langt og augað eygir. Ekkert er um fjöll og vegirnir eru nokkuð beinir. Þetta ætti því með réttu að vera þægilegustu aðstæður sem fyrir finnast fyrir hjólreiðafólk. Bergur segir það hins vegar ekki alveg rétt. „Menn segja að þarna sé allt flatt, en það er ekki rétt. Það eru ekki nein fjöll, en allt er úti í holtum og hæðum, upp og niður.“ Þá segir hann keppnina alla fara fram á malarvegum og þó þeir séu margir hverjir góðir og hraðir, þá komi inn á milli mjög slæmir kaflar. Vegirnir séu jú beinir, en það þýðir að allar beygjur eru 90 gráður, enda eru vegirnir sveitavegir milli akra.

Fóru vel af stað, en lentu í vandræðum eftir 160 km

350 mílna keppnin hófst klukkan 3 eftir hádegi á föstudaginn, en 200 mílna keppnin, sem er aðalkeppni helgarinnar, hófst á laugardagsmorgni. Bergur segir að hann og Guðberg hafi ákveðið að rúlla saman af stað og hjóla alla vega saman yfir nóttina og sjá svo til með framhaldið eftir það. „Við fórum af stað á okkar hraða. Það skiptir máli að finna hraða sem maður getur haldið út endalaust á,“ segir Bergur.

Eftir um 100 mílur, eða 160 kílómetra, var komið myrkur, en á þeim tíma var Guðberg kominn með í magann. Þá stoppuðu þeir til að borða og drekka, en vökva- og næringarinntaka er gríðarlega mikilvæg í svona keppnum, sérstaklega þar sem hitinn fór í um 40°C yfir hádaginn. Guðberg braggaðist allur eftir stoppið og þeir héldu áfram inn í nóttina. Bergur segir að Guðberg hafi um nóttina orðið mjög þreyttur og verið að dotta á hjólinu, sem hafi alls ekki verið gott.

Vegirnir voru misgóðir á þessum 550 kílómetrum.
Vegirnir voru misgóðir á þessum 550 kílómetrum. Ljósmynd/Bergur

Erfitt að hætta í miðjum óbyggðum

Ákvað Guðberg á þessum tímapunkti að hætta, en það var þó ekki eins einfalt og það hljómar, því þeir voru staddir fjarri öllum mannabyggðum með ekkert símasamband. Þurftu þeir því að halda áfram þangað til síminn myndi detta inn. Hittu þeir meðal annars á annan keppenda sem hafði brotið gjörð og hafði hann beðið í þrjár klukkustundir eftir að aðstoðarmaður hans kæmi á staðinn. Að lokum fundu þeir þó samband og gátu hringt í sinn aðstoðarmann.

Datt í gírinn í þægilegu hitastigi yfir nóttina

Þegar þarna var komið við sögu var klukkan 3 eftir miðnætti og Bergur var samtals búinn að hjóla 130 mílur, ekki nema 220 mílur eftir, eða rúmlega 350 kílómetrar. „Þarna datt ég í gírinn. Ég er vanur að hjóla í myrkri og svo var þægilegra hitastig í myrkrinu,“ segir hann og bætir við að hann hafi viljað ná sem flestum kílómetrum áður en sólin kæmi upp að nýju, en spáð var 35°C hita á laugardaginn. Reyndin varð reyndar að hitinn fór upp í um 40°C.

Bergur var í essinu sínu þegar nóttin skall á, enda …
Bergur var í essinu sínu þegar nóttin skall á, enda vanur að hjóla á nóttunni, auk þess sem hitastigið var nær því sem Íslendingar eiga að venjast. Ljósmynd/Bergur

„Þarna gekk mér mjög vel og týndi upp hvern hjólarann á fætur öðrum og náði samtals 12 yfir nóttina,“ segir Bergur. Þegar leið á daginn hélt hann því áfram og var alltaf að færast ofar á keppendalistanum. Segir Bergur að þarna hafi hann þó verið orðinn mjög þreyttur, en að sér hafi samt liðið nokkuð vel og að hann hafi ekki verið við það að dotta eða sofna. Hins vegar hafi hann mögulega ekki gert sér grein fyrir því hvernig hugarstarfsemin var orðin vegna þreytu.

Erfiðasti punkturinn þegar 100 mílur voru eftir

Þannig nefnir Bergur að þegar um 100 mílur voru eftir hafi verið komið að erfiðasta punkti keppninnar. Sólin var komin upp og hitinn orðinn næsta óbærilegur. Keppendur þurfa að ferðast með allan búnað, vistir og drykki sjálfir og er utanaðkomandi hjálp bönnuð. Hins vegar má stoppa í nokkrum fyrirframtilteknum bæjum og fara í verslanir þar til að birgja sig upp á leiðinni. Þetta átti meðal annars við um bæinn Alma sem Bergur fór í gegnum. Áttaði hann sig hins vegar ekki á því að þetta væri bærinn fyrr en hann var kominn alveg í gegnum hann og þurfti þar að snúa við.

Fjölmargir keppendur voru í búðinni og lágu þeir sumir á …
Fjölmargir keppendur voru í búðinni og lágu þeir sumir á búðarborðinu til að hvílast og kæla sig í loftkældu rýminu. Ljósmynd/Bergur

Þegar hann kom í búðina var hún full af öðrum hjólakeppendum sem lágu fram á búðarborðið og reyndu að kælast í loftkælingunni. Eftir að hafa drukkið vel af vökva og borðað segir Bergur að honum hafi talið sig vera á nokkuð góðum stað og ákveðið að skella í eina sjálfumynd með hjólinu sínu fyrir utan búðina. Reyndar hafi hann áttað sig á því daginn eftir þegar hann skoðaði myndirnar að þetta var ekkert hans hjól. Nokkru síðar taldi hann sig hafa mætt Höllu Jónsdóttur, öðrum starfsmanni Lauf sem tók þátt í 200 mílna keppninni og að þau hafi heilsast. Hún kannaðist hins vegar ekkert við það daginn eftir.

Bergur og hjólið sem er ekki hans hjól.
Bergur og hjólið sem er ekki hans hjól. Ljósmynd/Bergur

„Leið eins og ég væri að spila Pacman“

Eftir 15 mínúntna hvíld í búðinni fór hann af stað, en þarna var farið að kólna aftur og hitinn að nálgast 32°C. „Ég veðjaði á að það myndi áfram kólna,“ segir Bergur, en þarna var líkaminn farinn að virka vel aftur að hans mati. „Ég setti fullan kraft í þetta og náði áfram mönnum sem var mjög hressandi. Kærastan sendi mér svo sms skilaboð um nóttina og sagði að það væri eins og Pacman að fylgjast með mér,“ en hægt var að fylgjast með keppendum í rauntíma á heimasíðu keppninnar og var hver keppandi einn punktur. „Þetta var góð hvatning og mér leið eins og ég væri að spila Pacman,“ segir Bergur hlæjandi.

Þeir sem hafa farið í langar gönguferðir, hjólað langt eða tekið þátt í löngum hlaupum þekkja að stundum er gott að geta látið hugann reika og komast í „zone“ og þannig hætta að hugsa um áreynsluna, heldur vera á hálfgerðri sjálfstýringu. Spurður hvað hann geri í þessu sambandi segir Bergur að hann hafi enga sérstaka töfralausn. Honum líði almennt mjög vel þegar hann er einn úti að hjóla og í staðinn fyrir að hlusta á tónlist finnist honum til dæmist gott að hlusta bara á mölina og hljóðin í umhverfinu. Í fyrra hafi hann þó verið með meiri áætlun í þessum efnum þar sem hann hafi ákveðið að hugsa um allt það leiðinlega sem hann gæti verið að gera í staðinn fyrir að vera að hjóla, eins og vaska upp eða hengja upp þvott. Þá hafi hann einnig reynt að semja lög á ferðinni. Í ár hafi hann þó aldrei komist á slíkan stað. „Ég bara „zone-aði“ út og hjólaði. Það voru aldrei efasemdir eða vilji til að hætta,“ segir hann.

550 kílómetrar að baki.
550 kílómetrar að baki.

Alls ekki hættur og horfir til lengri keppna

Að lokum eftir 30 klukkustundir og 17 mínútur, klukkan 9 á laugardagskvöldinu kom Bergur að endalínunni. Segist hann vera rosalega sáttur með tímann og að hafa klárað. „Aðalmálið var að hafa klárað,“ segir hann, en tæplega helmingur þeirra sem hófu keppni kláruðu ekki. Var Bergur í 23. sæti af 45 sem kláruðu keppnina.

Það er ekki úr vegi að spyrja um hvað komi í framhaldi af svona keppni. Er eitthvað meira sem tekur við, eða er hægt að segja stopp hér og fara að huga að einhverju allt öðru? „Þetta er algjör fíkn og ég er strax byrjaður að horfa á lengri keppnir, jafnvel margra daga keppnir,“ segir Bergur. Næsta keppni er þó 5-6 klukkustunda keppni í Utah í Bandaríkjunum, en svo tekur við The Rift heima á Íslandi, en það er einmitt Lauf cycling sem stendur að baki þeirri keppni nú í lok júlí. „Þetta er allt liður í undirbúningi fyrir hana,“ segir hann hlæjandi, en bætir svo við í fullri alvöru að hann ætli sér sannarlega aftur á næsta ári í XL-keppnina. „Ætla að komast hraðar þá,“ segir Bergur að lokum.

Áður hefur verið fjallað um keppnissögu Ingvars Ómarssonar, sem tók þátt í 200 mílna keppninni:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert