Æfðu snertilendingar fyrir slysið

Flugvélin var flutt af vettvangi í Múlakoti í morgun.
Flugvélin var flutt af vettvangi í Múlakoti í morgun. Ljósmynd/Milla Ósk/RÚV

Flugmaður flugvélarinnar sem brotlenti í Múlakoti í gærkvöldi hafði verið að æfa snertilendingar á vellinum áður en slysið varð. Þetta staðfestir Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi. Eitt vitni varð að slysinu sjálfu auk nokkurra annarra sem voru á svæðinu. Búið er að ræða við öll vitnin að hans sögn.

Sveinn segir að engar aðrar flugvélar hafi verið að nota flugvöllinn þegar slysið varð.

Þrír létust í slysinu, en tveir voru fluttir alvarlega slasaðir á sjúkrahús með þyrlum Landhelgisgæslunnar. Er líðan þeirra stöðug samkvæmt lögreglu. Allir um borð voru Íslendingar. Vélin er tveggja hreyfla af gerðinni Piper Apache og er fimm sæta. Kviknaði í vinstri væng vélarinnar við slysið, en ekki í meginhluta vélarinnar.

Rannsóknarnefnd flugslysa, auk tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu rannsökuðu vettvang í nótt og fram á morgun, en vettvangsrannsókn lauk í morgun. Var flakið flutt í rannsóknarskýli rannsóknarnefndarinnar til frekari skoðunar.

Flugslysið varð rétt norðan við flugvöllinn við Múlakot í Fljótshlíð …
Flugslysið varð rétt norðan við flugvöllinn við Múlakot í Fljótshlíð á Suðurlandi um klukkan hálfníu í gær. Kort/Google Maps
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert