Þrír eru látnir og tveir voru fluttir alvarlega slasaðir með þyrlu Landhelgisgæslunnar á Landspítalann í Fossvogi eftir að flugvél skall til jarðar við Múlakot í Fljótshlíð á níunda tímanum í gærkvöld.
Að sögn lögreglunnar á Suðurlandi er líðan hinna slösuðu stöðug.
Rannsóknardeild lögreglustjórans á Suðurlandi fer með rannsókn málsins og nýtur aðstoðar rannsóknarnefndar samgönguslysa og tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Tilkynnt var um flugslys nálægt flugvellinum við Múlakot í Fljótshlíð um 20.30 í gærkvöld. Eldur var þá laus í flugvélinni. Fjölmennt lið lögreglu, slökkviliðs og sjúkraflutninga HSU, ásamt tveimur þyrlum Landhelgisgæslunnar fóru á staðinn.
Viðbragðsteymi Rauða krossins var sent á vettvang til að veita vitnum að atvikinu sálrænan stuðning.