Tók eina klukkustund og 23 mínútur

Leikmenn Tyrklands fagna sigrinum gegn Frakklandi á laugardag.
Leikmenn Tyrklands fagna sigrinum gegn Frakklandi á laugardag. AFP

Isavia hefur greint utanríkisráðuneytinu frá því að öryggisleitin sem tyrkneska landsliðið fékk við komuna til Íslands í gærkvöld hafi verið samkvæmt reglum. Ráðuneytið hefur verið í sambandi við tyrknesk yfirvöld vegna málsins.

Tyrk­ir hafa lýst yfir mik­illi óánægju yfir þeirri meðferð sem landsliðið fékk á Leifs­stöð í gær. Þannig hef­ur meðal ann­ars talsmaður Recep Tayyip Er­doğ­an for­seta, Ibra­him Kalin, lýst yfir óánægju sinni á Twitter og upp­lýs­inga­full­trúi tyrk­neska for­seta­embætt­is­ins, Fahrett­in Alt­un, sömu­leiðis. 

Eins og kom fram fyrr í dag komu Tyrkir frá flugvelli utan Evrópusambandsins og Schengen-svæðisins. Þegar þannig er þurfa allir farþegar, íslenskir og erlendir, að fara í gegnum öryggisleit í Leifsstöð á grundvelli alþjóðlegra skuldbindinga.

Fram kemur í yfirlýsingu á vef utanríkisráðuneytisins að frá því að flugvél tyrkneska landsliðsins lenti í Keflavík og þar til þeir sem voru um borð voru komnir út úr komusal flugstöðvarinnar hafi liðið ein klukkustund og 23 mínútur. Tyrknesku leikmennirnir sögðu töfina hafa verið nokkrar klukkustundir.

Þar er enn fremur greint frá því að því miður hafi opinber beiðni um flýtimeðferð í gegnum flugstöðina ekki borist í tæka tíð en hún barst frá sendiráði Tyrklands í Ósló. Slíkar beiðnir eigi yfirleitt aðeins við um háttsetta embættismenn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert