Tvær tölvuárásir gerðar á vefsíðu Isavia

Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia.
Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia. Ljósmynd/Isavia

Nú síðdegis hefur vefsíða Isavia, sem birtir flugupplýsingar fyrir alla íslenska áætlunarflugvelli, legið niðri í um tvo tíma vegna tölvuárása. Um er að ræða svokallaða ddos árás þar sem framkölluð er umferð á vefsíðuna með þúsundum sýndarnotenda.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Isavia. 

Með þeim hætti náðu óprúttnir aðilar að gera vefsíðuna óvirka.

Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, segir að ekkert sé hægt að fullyrða um hvaðan árásin er gerð. Stuðningsmenn tyrkneska landsliðsins í knattspyrnu hafa lýst óánægju sinni með þann tíma sem það tók liðið að komast af flugvellinum í gærkvöldi.

Auk þess hefur talsmaður Recep Tayyip Er­doğ­an for­seta, Ibra­him Kalin lýst yfir óánægju sinni á Twitter og upp­lýs­inga­full­trúi tyrk­neska for­seta­embætt­is­ins, Fahrett­in Alt­un, sömu­leiðis. 

„Tímasetningin vekur vissulega athygli en það er ekki hægt að fullyrða neitt,“ segir Guðjón. 

Tæknimenn hafa unnið að því að verjast þessum árásum og er vefsíðan nú að mestu sýnileg notendum. Þó getur það tekið lengri tíma fyrir einhverja notendur að komast inn á vefinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert