Aukin spenna eykur hættuna á mistökum

Jens Soltenberg, framkvæmdastjóri NATO, á fundi í Norræna húsinu í …
Jens Soltenberg, framkvæmdastjóri NATO, á fundi í Norræna húsinu í dag. mbl.is/Hari

„Öryggisumhverfið er óstöðugt og ófyrirsjáanlegt,“ sagði Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, á opnum fundi Alþjóðastofnunar Háskóla Íslands síðdegis í dag. Þá sagði hann bandalagið kljást sérstaklega við þrjú viðfangsefni sem skipti sköpum fyrir framtíð bandalagsins og aðildarríkjanna allra.

Mikill áhugi var á fundi Stoltenberg í dag, fullt var út að dyrum í sal Norræna hússins og þurfti að opna hliðarsal til þess að koma öllum fyrir.

Stoltenberg sagði fyrstu áskorunina felast í styrkleika bandalagsins. „Menn eru að setja spurningamerki við styrkleika NATO, bæði í Evrópu og í Bandaríkjunum.“ Einnig séu margir ósammála beggja vegna Atlantshafsins um „tollamál, viðskipti, Íran og loftslagsmál, svo fátt sé nefnt.“

Hann sagði hins vegar umræðuna ekki endilega endurspegla veruleikann. Mikið sé rætt um ósamræmi og sundrungu, en aðildarríkin séu nú að gera meira sameiginlega en nokkru sinni fyrr. „Margir telja að Bandaríkin séu að yfirgefa Evrópu, en Bandaríkin hafa aukið viðveru sína í Evrópu og fjárfestingar í innviðum og búnað um 40% frá því að Trump varð forseti.“

„Eina leiðin til þess að tryggja framtíð NATO er með velvild íbúa aðildarríkjanna. Við verðum að sanna að bandalagið eigi erindi og að það hafi aðlögunarhæfni,“ sagði Stoltenberg.

Hervæðing norðurslóða

„Í öðru lagi er það áskorun er snýr að Íslandi. Hvernig getum við tryggt að norðurslóðir verði ekki átakasvæði. Við ættum að halda áfram að vinna í þá átt. En við verðum að horfast í augu við að það er verið að auka hervæðingu, fjölga herstöðvum, kafbátum og flugvélum,“ útskýrði framkvæmdastjórinn.

Þá sagði hann mikilvægt að aðildarríkin standi saman og sýni styrk sinn, en jafnframt að opnað verði á samræður við Rússland. „Eins lengi og við stöndum saman getum við rætt við Rússland í þeim tilgangi að draga úr spennu. Með aukinni spennu eykst hættan á mannskæðum mistökum sem getur leitt til aðstæðna sem við ráðum ekki við,“ sagði Stoltenberg.

Þá bætti hann við að Ísland, sé með formennsku sinni í Norðurskautsráðinu, í lykilhlutverki þegar komi að því að efla friðsæl samskipti á norðurslóðum.

mbl.is/Hari

Fjölgun gereyðingarvopna

„Í þriðja lagi er það eftirlit með vopnasölu og takmörkun á útbreiðslu gereyðingavopna,“ sagði Stoltenberg svo og vísaði til þess að Rússland hafi með nýjum kjarnorkueldflaugum brotið gegn INF-samningnum sem var gerður í þeim tilgangi að stöðva fjölgun kjarnorkuvopna.

„Bandarísk stjórnvöld, undir stjórn Obama og Trump, hafa ítrekað reynt að ræða málið við Rússa án árangurs. Við verðum að vera undir það búin að sú staða geti komið upp að INF sáttmálinn sé ekki lengur í gildi,“ bætti hann við og ítrekaði mikilvægi þess að Rússar komi aftur að samningaborðinu og undirgangist samningin sem gerður var í kjölfar Reykjavíkurfundarins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert