Grasfrjó taka að ferðast um loftin blá og ofnæmir mættu fara að verða varir um sig. Það er nú í júní sem grasfrjóin taka flug og allt eftir árum geta þau valdið óþægindum fram í september.
Góðu fréttirnar fyrir ofnæma eru hins vegar þær að birkifrjóin, sem ásamt grasfrjóunum herja hvað skæðast, hafa siglt sinn sjó.
Birkifrjóin eru að öllu jöfnu mest í apríl og voru það í ár, samkvæmt mælingum Náttúrufræðistofnunar Íslands. Svo bar við dagana 25. og 26. apríl að til Akureyrar barst með sterkum vindum gusa af birkifrjóum, sem Náttúrufræðistofnun telur að hafi komið frá Austur-Evrópu. Þá má ætla að nokkur kláði hafi gripið um sig hjá norðlenskum ofnæmissjúklingum. Annars mældust frjó á Akureyri í apríl hátt yfir meðallagi og í maí sömuleiðis nokkuð yfir meðallagi.