„Hefðum í rauninni viljað hærra verð“

Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar vísar ummælum Vilhjálms Birgissonar, formanns Verkalýðsfélags …
Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar vísar ummælum Vilhjálms Birgissonar, formanns Verkalýðsfélags Akraness, á bug. mbl.is/Hari

Forstjóri Landsvirkjunar vísar á bug ummælum Vilhjálms Birgissonar, formanns Verkalýðsfélags Akraness, um misjafnan ásetning Landsvirkjunar með samningaviðræðum við Elkem á Grundartanga. „Fjarstæðukenndur málflutningur,“ segir hann.

Vilhjálmur Birgisson sagði í pistli á Facebook-síðu sinni á dögunum að hækkun á raforkuverði til Elkem Ísland á Grundartanga „ógnaði rekstrarforsendum Elkem gríðarlega og um leið öryggi þeirra sem þar starfa“. Með ólíkindum væri að Landsvirkjun krefji fyrirtæki um „raforkuverð sem eru það há að þau myndu kippa allri framlegð þeirra í burtu“.

„Það er ýmislegt í þessu sem er að mínu mati ekki alls kostar rétt,“ segir Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar. Hann útskýrir að um framlengingu á 40 ára gömlum samningi hafi verið að ræða og að hækkunin hafi komið til af því að verðið hafi verið mjög lágt fyrir. Eftir tilraunir til þess að semja beint um nýtt raforkuverð hafi verið ákveðið að vísa verðákvörðuninni til gerðardóms.

Hefðu viljað fá hærra verð

Landsvirkjun hefði raunar viljað fá hærra verð en gerðardómur ákvarðaði. „Nýr samningur þarf að vera í takt við tímann. Þótt um hækkun sé að ræða er það vegna þess að verðið var lágt fyrir,“ segir Hörður. „Við hefðum í rauninni viljað fá töluvert hærra verð en gerðardómur ákvað þetta og við virðum það,“ segir hann.

„Gerðardómi bar að úrskurða þeim sambærilegt verð og aðrir í sömu starfsemi á Íslandi greiða á sama tíma, sem er augljóslega sanngjarnt ákvæði. Samningsaðilar geta haft mismunandi túlkun á því. Á sama tíma og Elkem kann að þykja þetta óþarflega hátt teljum við þetta óþarflega lágt,“ segir Hörður.

Gerðardómur féll í lok mánaðar um nýtt raforkuverð sem Landsvirkjun …
Gerðardómur féll í lok mánaðar um nýtt raforkuverð sem Landsvirkjun skyldi selja Elkem Íslandi á Grundartanga raforkuna á. mbl.is/Árni Sæberg

Ekki er unnt að svo komnu máli að fá uppgefið hvert raforkuverðið verður til Elkem en Hörður segir að verðið sem gerðardómurinn komst að niðurstöðu um sé lægra verð en Landsvirkjun sé tilbúin að bjóða öðrum fyrirtækjum. „Það er ljóst að verðið sem gerðardómur kvað á um er lægra verð heldur en við erum tilbúin að semja við aðra um,“ segir hann.

Hann segist ekki telja nýja verðið ógna lífsviðurværi starfsmannanna enda sé um samkeppnishæft raforkuverð að ræða miðað við það sem aðrir greiða hér og erlendis. Þá er samningurinn bindandi til 10 ára.

„Þessi mál eru al­ger­lega ótengd“

Vilhjálmur sagði í pistli sínum „ekki dónalegt fyrir Landsvirkjun að vera búið að eyða háum upphæðum í að kanna kosti þess að hingað sé lagður sæstrengur þegar hægt er að slátra orkufrekum iðnaði með gríðarlegum hækkunum á raforkuverði og segja svo „við verðum að fá sæstreng því við eigum svo mikið af ónýttri raforku til“.“

Vilhjálmur Birgisson, formaður VLFA, fór hörðum orðum um verðhækkunina í …
Vilhjálmur Birgisson, formaður VLFA, fór hörðum orðum um verðhækkunina í pistli á Facebook. mbl.is/​Hari

Hörður vísar því algerlega á bug að þessi hækkun tengist framtíðaráformum um sæstreng til Íslands. „Þessi mál eru algerlega ótengd. Þetta er langtímaraforkusamningur við einn af okkar góðu viðskiptavinum. Hann er bindandi í 10 ár fyrir báða aðila, þannig að hvorugur getur sagt sig frá honum,“ segir hann. Ekki standist að halda því fram að nýja verðið eigi að vera til þess fallið að fæla viðskiptavini Landsvirkjunar úr viðskiptum.

„Þannig að það er fjarstæðukenndur málflutningur að halda því fram að verið sé að vinna að sæstreng með þessu. Það er hlutverk stjórnvalda að ákveða það,“ segir Hörður.

Hann segir þó að þar sem sæstrengir hafi verið lagðir erlendis hafi gengið vel að reka þar áfram raforkufrekan iðnað, eins og í Noregi, og bendir á að Landsvirkjun hafi lengi hvatt til þess að slíkt sé skoðað hér á landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert