Lækka skatt á tíðavörur

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, var fyrsti flutningsmaður frumvarpsins.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, var fyrsti flutningsmaður frumvarpsins. mbl.is/​Hari

Samþykkt var að lækka virðisaukaskatt á tíðavörur og getnaðarvarnir úr 24% í 11% á Alþingi í dag. 43 þingmenn sögðu já, 9 greiddu ekki atkvæði og 11 voru fjarstaddir. Frumvarp sama efnis hefur verið lagt fram áður, á tveimur þingum, en fékkst ekki afgreitt fyrr en nú.

Fyrsti flutningsmaður frumvarpsins var Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, en meðflutningsmenn hennar voru úr öllum flokkum stjórnarandstöðunnar nema Viðreisn. Studdu þó þingmenn úr öllum flokkum frumvarpið.

Frumvarpið nær yfir allar einnota og margnota tíðavörur þar með talin dömubindi, tíðatappa og álfabikara, auk allra tegunda getnaðarvarna. Eru þessir vöruflokkar færðir úr efra í neðra þrep virðisaukaskatts, smokkar hafa þó þegar verið í lægsta þrepi virðisaukaskatts um nokkurt skeið.

„Markmið frumvarpsins er stuðla að bættri lýðheilsu með því að draga úr kostnaði vegna nauðsynlegra hreinlætisvara, ásamt því að jafna aðstöðumun notanda mismunandi forma getnaðarvarna,“ segir í greinargerð með frumvarpinu.

Áætlað tekjutap ríkisins vegna skattalækkunarinnar telst óverulegt af flutningsmönnum frumvarpsins, en 37,9 milljónir króna hafa til þessa runnið til ríkisins vegna sölu tíðavara og 4 milljónir króna vegna getnaðarvarna. „Á móti skilar bætt lýðheilsa sparnaði í heilbrigðiskerfinu,“ segir í greinargerðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert