„Takk fyr­ir ykk­ar fram­lag“

Það var létt yfir þeim Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATO, og …
Það var létt yfir þeim Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATO, og Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í ráðherrabústaðnum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við áttum góðar umræður,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á blaðamannafundi í Ráðherrabústaðnum eftir fund hennar með Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATO, í dag.

„Við erum sammála um mikilvægi norðurslóða og að aukinn pólitískur áhugi er á svæðinu. Við ræddum bæði jákvæðar og neikvæðar hliðar þess að áhuginn eykst. Það er okkar sýn að þetta eigi ekki að verða átakasvæði og þörf er á aukni fjölþjóðlegu samstarfi,“ sagði hún.

Þá ræddu þau meðal annars kjarnorkuafvopnun og netöryggismál. Fundar Stoltenberg nú með þjóðaröryggisráði og gat forsætisráðherra upplýst að þar hyggst hún taka upp loftslagsmálin sem hún sagði stórt öryggismál í stærra samhengi, auk þess er rætt um innviðaöryggi og öryggi lýðræðislegra stofnanna.

Vildi þakka Íslendingum

Stoltenberg sagðist fyrst og fremst vera hér á landi til þess að þakka Íslendingum fyrir framlag sitt til málefna NATO. „Þó að framlag Íslands sé af borgaralegum toga, er það ekki síður mikilvægt,“ sagði hann. „Takk fyrir ykkar framlag til sameiginlegs öryggi okkar,“ bætti Stoltenberg við.

„Þið hafið verið í fremstu röð er varðar konur, frið og öryggi. Við vitum að það er gríðarlega mikilvægt að tryggja þátttöku kvenna í starfi okkar, bæði í höfuðstöðvum NATO og í aðgerðum bandalagsins. Það er mikilvægt að við framkvæmum verkefnin með þeim hætti að við verndum konur, enda eru það konur sem eru oft þeir einstaklingar sem standa höllustum fæti þegar átök eru annarsvegar,“ sagði framkvæmdastjórinn.

Þá sagði hann staða Íslands hafa sérstaka merkingu í ljósi þess að Rússar væru að auka hernaðarlega viðveru sína á norðurslóðum.

Skiptar skoðanir styrkleiki

Stoltenberg og Katrín voru spurð hvort það hafi haft áhrif á samtal þeirra tveggja að flokkur Katrínar væri mótfallinn aðild að NATO.

„NATO er bandalag lýðræðisríkja og í lýðræðisríkjum eru menn með mismunandi skoðanir á mörgum málum, líka aðild að NATO. Þetta er ekkert nýtt. Svo er það líka þannig að skiptar skoðanir eru ekki veikleiki heldur styrkur,“ svaraði framkvæmdastjóri NATO.

Bætti hann við að hann væri meðvitaður um að það væri skýr meirihluti á Alþingi fyrir aðild að NATO og að það væri það sem skipti máli í þessu samhengi. Jafnframt benti hann á að hann hafi sjálfur leitt ríkisstjórn í Noregi þar sem einn ríkisstjórnarflokkanna var mótfallinn aðild að NATO. „Síðan er það þannig að flokkar semja sín á milli um samstarfsgrundvöll og í því tilviki lögðum við umræður um aðildina á hilluna.“

Gerir ekki upp á milli NATO-ríkja

Þegar þau voru spurð hvort Ísland eða Tyrkland sigri knattspyrnuleikinn í kvöld svaraði Stoltenberg að hann muni ekki gera upp á milli tveggja aðildarríkja NATO.

„Ísland sigrar að sjálfsögðu,“ svaraði Katrín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert