„Þetta er ákaflega sorglegt og hörmulegt flugslys,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, í samtali við mbl.is um flugslysið í Fljótshlíð á Suðurlandi á sunnudagskvöld. Flugsamgöngur heyra undir ráðuneyti hans.
„Hugur manns er alltaf hjá fólki sem verður fyrir ástvinamissi,“ segir Sigurður Ingi. Hann óskar þeim jafnframt skjóts bata sem liggja á sjúkrahúsi. „Þetta er hörmulegt slys.“
Í slysinu létust hjón og sonur þeirra. Annar sonur þeirra og tengdadóttir liggja slösuð á sjúkrahúsi í Reykjavík, þar sem ástand þeirra er sagt stöðugt. Komið hefur fram að flugmaðurinn var þaulreyndur flugmaður og að fjölskyldan hafi verið mikið flugfólk.
„Ég votta öllum aðstandendum mína dýpstu samúð,“ segir Sigurður Ingi. Honum sýnist að gert hafi verið vel í viðbrögðum við slysinu. „Ég er þakklátur fyrir það sem mér hefur sýnst, að allir viðbragðsaðilar og þeir sem að þessu hafa komið eftir á, hafi gert mjög vel,“ segir Sigurður.
Frumrannsókn stendur yfir í málinu, þar sem verið er að kanna vettvang og ræða við vitni. Rannsókn á sjálfu flakinu, sem þó er komið í rannsóknarskýli í Keflavík, er ekki enn hafin. Sigurður Ingi segist vona að rannsóknin gangi vel. „Ég vona að rannsóknin hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa skili sem fyrst einhverjum niðurstöðum,“ segir hann.
Í samtali við mbl.is sagði rannsóknarstjóri flugsviðs hjá rannsóknarnefnd flugslysa í gær að ætla mætti að nefndina tæki 1-3 vikur að ljúka frumrannsókn á slysinu.