Samþykkt var að lækka virðisaukaskatt á tíðavörum og getnaðarvörnum kvenna úr 24% í 11% á Alþingi í gær með öllum greiddum atkvæðum.
Nær frumvarpið til allra einnota og margnota tíðavara, svo sem dömubinda, túrtappa og tíðabikara auk allra tegunda getnaðarvarna. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að markmið frumvarpsins sé að stuðla að bættri lýðheilsu með því að draga úr kostnaði vegna nauðsynlegra hreinlætisvara, ásamt því að jafna aðstöðumun notanda mismunandi forma getnaðarvarna.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, aðalflutningsmaður frumvarpsins, segir lagabreytinguna nauðsynlegt skref til að jafna bilið milli kynjanna þegar kemur að nauðsynlegum hreinlætisvörum og getnaðarvörnum.
Segir Þórhildur að með lögunum verði vörur af þessu tagi ekki lengur flokkaðar sem lúxusvörur. Hún segir þetta skref í að afnema hinn svokallaða „bleika skatt“, þ.e. þau gjöld sem konur greiði aukalega fyrir vörur og þjónustu sem karlar þurfi ekki að greiða. Þórhildur bendir á að nauðsynlegar hreinlætisvörur eins og bleyjur séu í lægra virðisaukaskattþrepi en dömubindi og að getnaðarvarnir karla hafi auk þess verið í lægra þrepi virðisaukaskatts en getnaðarvarnir kvenna um nokkurt skeið. Hún fagnar því að með lögunum verði aukið jafnrétti kynjanna hvað varðar getnaðarvarnir.