Fyrsta banaslysið í flugi frá 2015

Flugslysið hörmulega í Fljótshlíð að kvöldi hvítasunnudags var fyrsta banaslysið …
Flugslysið hörmulega í Fljótshlíð að kvöldi hvítasunnudags var fyrsta banaslysið í íslensku flugi frá árinu 2015. Ljósmynd/Milla Ósk Magnúsdóttir

Flug­slysið hörmu­lega við flug­völl­inn í Múla­koti í Fljóts­hlíð á sunnu­dags­kvöld var fyrsta mann­skæða flug­slysið sem orðið hef­ur hér á landi frá ár­inu 2015 og sjö­unda bana­slysið í flugi sem á sér stað á Íslandi frá alda­mót­um. Það er jafn­framt hið mann­skæðasta sem orðið hef­ur frá Skerja­fjarðarslys­inu um versl­un­ar­manna­helg­ina árið 2000, sem heimti sex manns­líf.

Færri bana­slys hafa orðið í flugi á fyrstu tveim­ur ára­tug­um 21. ald­ar en raun­in var á síðari hluta 20. ald­ar. Ekk­ert bana­slys varð í flugi ís­lensk­skráðra loft­fara á ár­un­um 2001-2008, sem er eins­dæmi, en árið 2001 fórst þó banda­rísk einka­flug­vél út af Suður­landi.

Fara þarf aft­ur til ár­anna 1953-1955 til þess að finna næsta dæmi um að eng­inn lát­ist í flug­slys­um ís­lenskra loft­fara þrjú ár í röð, en árið 1953 fórst þó banda­rísk herflug­vél á Mýr­dals­jökli.

Ekk­ert skráð flug­slys í fyrra

Á síðasta ári bár­ust flugsviði rann­sókn­ar­nefnd­ar sam­göngu­slysa alls 2.984 til­kynn­ing­ar um flug­at­vik, al­var­leg flug­at­vik og flug­slys og hef­ur fjöldi slíkra til­kynn­inga auk­ist mjög und­an­far­inn ára­tug og eru til­kynn­ing­ar nú rúm­lega fjór­um sinn­um fleiri en þær voru árið 2007.

Fjöldi banaslysa íslenskskráðra loftfara 1920-2018.
Fjöldi bana­slysa ís­lensk­skráðra loft­fara 1920-2018. Rann­sókn­ar­nefnd flug­slysa

Þetta kem­ur fram í árs­yf­ir­liti rann­sókn­ar­nefnd­ar­inn­ar, sem kom út í janú­ar á þessu ári, en tekið er fram að þessa aukn­ingu þurfi ekki endi­lega að rekja til þess að ör­yggi í flugi sé að rýrna, held­ur þvert á móti til þess að til­kynn­ing­ar­skyld­ir aðilar séu orðnir dug­legri að skila inn til­kynn­ing­um um flug­at­vik en áður, auk þess sem flug­um­ferð hafi auk­ist.

Á ár­inu 2018 var ekk­ert mál skráð sem flug­slys, sem rann­sókn­ar­nefnd­in seg­ir að verði að telj­ast nokkuð sér­stakt, enda hafði það ekki gerst allt frá ár­inu 1969.

Bana­slys í flugi á Íslandi:

List­inn er ekki tæm­andi.

9. júní 2019. Piper PA-23 einka­flug­vél, skráð í Banda­ríkj­un­um, brot­lenti við flug­völl­inn í Múla­koti í Fljóts­hlíð. Þrír lét­ust og tveir liggja al­var­lega slasaðir á Land­spít­ala.

12. nóv­em­ber 2015. Tecnam-kennsluflug­vél frá Flug­skóla Íslands brot­lenti í Kap­ellu­hrauni. Tveir lét­ust.

9. ág­úst 2015. Einka­flug­vél hrapaði í Bar­kár­dal. Einn lést.

5. ág­úst 2013. Sjúkra­flug­vél Mý­flugs brot­lenti á aksturíþrótta­svæðinu við Hlíðarfjalls­veg á Ak­ur­eyri. Tveir lét­ust.

20. októ­ber 2012. Fis­vél hrapaði á Reykja­nesi eft­ir að hafa of­risið. Tveir lét­ust.

2. júlí 2009. Cessna-einka­flug­vél flaug á raf­magns­línu í Selár­dal. Einn lést.

6. mars 2001. Tveggja hreyfla banda­rísk flug­vél fórst und­an Suður­landi. Tvær lét­ust.

7. ág­úst 2000. Cessna T210L flug­vél á veg­um Leiguflugs Ísleifs Ottesen hrapaði í sjó­inn í Skerjaf­irði. Sex lét­ust.

10. ág­úst 1998. Flug­vél þýskra feðga lenti á kletta­belti á Vest­ur­horni nærri Höfn í Hornafirði. Þrír lét­ust.

14. sept­em­ber 1997. Þyrla frá Þyrluþjón­ust­unni brot­lenti í fjalls­hlíð inn af Ham­ars­firði. Einn lést.

5. apríl 1997. Yak-52 einka­flug­vél hrapaði skammt utan við Straums­vík eft­ir list­flug­sæfing­ar. Tveir lét­ust.

14. sept­em­ber 1995. Vél flug­skól­ans Flug­taks brot­lenti í Gler­ár­dal. Þrír lét­ust.

8. júlí 1995.
Svifflug­vél of­reis eft­ir flug­tak á Mel­gerðis­mel­um í Eyjaf­irði og hrapaði til jarðar. Einn lést.

30. júní 1995.
Einka­flug­vél fórst í Geita­hlíð, skammt sunn­an við Kleif­ar­vatn. Einn lést.

28. ág­úst 1994.
Cessna-flug­vél hrapaði við Borg­ar­nes. Tveir lét­ust.

7. ág­úst 1993.
Vélsviffluga hrapaði til jarðar á Sand­skeiði. Einn lést.

3. júlí 1992. Flug­vél fórst í Heklu­hrauni, á leið frá Þórs­mörk til Reykja­vík­ur. Einn lést.

23. des­em­ber 1990. Sviffluga hrapaði til jarðar í Eyjaf­irði eft­ir að ann­ar væng­ur henn­ar brotnaði af í flu­gæf­ing­um. Einn lést.

3. des­em­ber 1990. Cessna-flug­vél fórst á Mos­fells­heiði. Einn lést.

13. októ­ber 1990. Flug­vél fórst í Skerjaf­irði eft­ir að báðir hreyfl­ar stöðvuðust. Einn lést. 

16. júlí 1990. Paper PA-28 flug­vél flaug á há­spennu­línu í Ásbyrgi í Keldu­hverfi. Einn lést.

30. júlí 1989. Cessna-flug­vél spann til jarðar úr lág­flugi við Torf­astaði í Bisk­upstung­um. Einn lést. 

23. júlí 1987. Piper PA-28 flug­vél fórst rétt eft­ir flug­tak frá Blönduós­flug­velli. Fjór­ir lét­ust.

31. janú­ar 1987. Piper Chi­eftain-flug­vél frá Flug­fé­lag­inu Erni lenti í sjón­um í mynni Skutuls­fjarðar í Ísa­fjarðar­djúpi. Einn lést.

17. júní 1986. Maule-flug­vél spann til jarðar í aðflugi að Flúðaflug­velli. Einn lést.

5. apríl 1986. Piper PA-23 flug­vél Flug­fé­lags­ins Ern­is brot­lenti í Ljósu­fjöll­um á Snæ­fellsnesi. Fjór­ir lét­ust.

31. janú­ar 1986. Zenith-flug­vél fórst á skíðasvæðinu í Bláfjöll­um. Tveir lét­ust.

8. nóv­em­ber 1983.
Þyrla Land­helg­is­gæslu Íslands fórst í Jök­ul­fjörðum. Fjór­ir lét­ust.

22. októ­ber 1983. Farþegi gekk í skrúfu flug­vél­ar á Reykja­vík­ur­flug­velli, eft­ir flug frá Eg­ils­stöðum.

25. apríl 1983. Cessna-flug­vél fórst í Hval­f­irði. Tveir lét­ust.

26. októ­ber 1982. Flug­vél týnd­ist í hafi út af Arnar­f­irði, í sjón­flugi frá Suður­eyri til Ísa­fjarðar. Einn lést. 

20. júlí 1982. Piper PA-23 flug­vél flaug á Kistu­fell í Esju í aðflugi til Reykja­vík­ur­flug­vall­ar eft­ir flug frá Eg­ils­stöðum. Fimm lét­ust. 

5. júlí 1982. Farþegi lést er hann gekk í skrúfu Cessna-flug­vél­ar eft­ir lend­ingu á Sand­skeiði.

4. októ­ber 1981. Rallye-100 flug­vél fórst í lend­ingaræf­ing­um á Helluflug­velli. 

27. maí 1981. Rockwell-flug­vél  fórst við Þver­ár­vötn á Tví­dægru, á leið frá Reykja­vík til Ak­ur­eyr­ar. Fjór­ir lét­ust. 

22. sept­em­ber 1980. BN-2A Island­er-flug­vél flaug á fjalls­hlíð í Smjör­fjöll­um á leið frá Þórs­höfn til Eg­ilsstaða. Fjór­ir lét­ust.

17. fe­brú­ar 1980. Flug­vél spann til jarðar rétt eft­ir flug­tak af flug­vell­in­um í Húsa­felli. Einn lést.

8. nóv­em­ber 1979. Cita­bria-vél flaug á raflínu í lág­flugi í Borg­ar­f­irði. Tveir lét­ust.

25. apríl 1977. Hug­hes-þyrla flaug í jörðu á Mæli­fellss­andi norðan Mýr­dals­jök­uls og eyðilagðist. Tveir menn urðu úti.

17. janú­ar 1975
. Si­kor­sky-þyrla fórst við Hjarðarnes í Hval­f­irði á leið frá Reykja­vík til Vega­móta. Sjö fór­ust.

2. júní 1974. Beech-flug­vél fórst í Svína­dal í Döl­um, á leið frá Stykk­is­hólmi til Reykja­vík­ur. Fjór­ir lét­ust.

15. júlí 1973. Moo­ney M-20 flug­vél flaug á fjalls­hlíð og fórst í Snjófjöll­um, á leið frá Reykja­vík til Þórs­hafn­ar.

26. mars 1973. Beech-flug­vél fórst í Búr­fjöll­um norðaust­an Lang­jök­uls, á leið frá Ak­ur­eyri til Reykja­vík­ur. Fimm lét­ust. 

4. júní 1972. Maður gekk í skrúfu flug­vél­ar og beið bana á Akra­nes­flug­velli.

19. mars 1972. Vasama-vél stakkst til jarðar eft­ir vírslit í flug­togi á Sand­skeiði. Einn lést.

30. júlí 1971. Cessna-flug­vél spann í jörðu í lág­flugi í Vog­um á Vatns­leysu­strönd. Einn lést.

10. júlí 1969. Þyrla frá banda­ríska varn­ar­liðinu hrapaði við bæ­inn Hvamm und­ir Eyja­fjöll­um. Einn lést.

15. júlí 1968. Piper PA-28 flug­vél spann til jarðar á Brunn­hæð við Látra­bjarg, í sjón­flugi til Ísa­fjarðar. Fjór­ir lét­ust.

19. fe­brú­ar 1968. Piper PA-30 flug­vél spann í jörð á Reykja­vík­ur­flug­velli eft­ir bil­un í hreyfli í flug­taki. Tveir lét­ust.

3. októ­ber 1967. Flug­vél týnd­ist í hafi í sjón­flugi á leið frá Húsa­vík til Reykja­vík­ur. Einn lést. 

31. júlí 1967. Farþegi gekk í skrúfu Cessna-flug­vél­ar á Reykja­vík­ur­flug­velli og lést.

31. maí 1967. Piper PA-28 flug­vél flaug í sjó­inn á Viðeyj­ar­sundi, skammt und­an Gufu­nesi. Einn lést.

3. maí 1967.
DC-3 flug­vél Flug­sýn­ar fórst við lend­ingu í Vest­manna­eyj­um. Þrír lét­ust.

18. janú­ar 1966. Beech-sjúkra­flug­vél fórst út af Norðfjarðar­horni í aðflugi til Norðfjarðar frá Reykja­vík. Tveir lét­ust.

1. maí 1965.
Þyrla frá banda­ríska varn­ar­liðinu fórst á Vatns­leysu­strönd. Fimm lét­ust.

13. ág­úst 1964. Cessna-flug­vél flaug á Litla-Meitil í Þrengsl­um í sjón­flugi frá Vest­manna­eyj­um til Reykja­vík­ur. Einn lést.

16. maí 1962. Piper J-3 flug­vél hrapaði til jarðar í æf­inga­flugi flugnema við Kor­púlsstaði. Einn lést.

24. apríl 1959. Cessna-flug­vél fórst í Sátu­dal á Snæ­fellsnesi, í sjúkra­flugi frá Skagaf­irði til Reykja­vík­ur. Þrír lét­ust.

4. janú­ar 1959. Cessna-flug­vél fórst í Bílds­ársk­arði á Vaðlaheiði á leið frá Laug­um til Ak­ur­eyr­ar. Fjór­ir lét­ust.

29. mars 1958. Cessna-flug­vél fórst á Öxna­dals­heiði á leið frá Reykja­vík til Ak­ur­eyr­ar. Fjór­ir lét­ust. 

12. fe­brú­ar 1956. Fleet Finch-flug­vél fórst á Holta­vörðuheiði í sjón­flugi frá Ak­ur­eyri til Reykja­vík­ur. Einn lést.

15. des­em­ber 1953.
Herflug­vél frá banda­ríska varn­ar­liðinu brot­lenti á Mýr­dals­jökli. Átta lét­ust.

5. mars. 1952. Piper J-3 flug­vél flaug á símastaur við Sand­skeið. Einn lést. 

31. janú­ar 1951. Dakota-flug­vél Flug­fé­lags Íslands hrapaði í Faxa­flóa í aðflugi að Reykja­vík­ur­flug­velli. 20 lét­ust.

27. mars 1948. Pratt & Reed-flug­vél lenti á húsi eft­ir að tog­vír slitnaði í flug­togi af Reykja­vík­ur­flug­velli. Tveir lét­ust.

7. mars 1948. Avro An­son V flug­vél flaug á Skála­fell á Hell­is­heiði, á leið til Vest­manna­eyja frá Reykja­vík. Fjór­ir lét­ust. 

31. maí 1947. Luscom­be-flug­vél fórst í æf­inga­flugi ná­lægt Varma­dal í Mos­fells­sveit. Tveir lét­ust. 

29. maí 1947
. Douglas DC-3 flug­vél Flug­fé­lags Íslands flaug á Hest­fjall í Héðins­firði. Mann­skæðasta flug­slys sem orðið hef­ur á Íslandi. 25 lét­ust.

13. mars 1947.
Flug­bát­ur Loft­leiða hlekkt­ist á í flug­taki á Hvamms­firði, þaðan sem vél­in var að hefja sig á loft frá Búðar­dal. Fjór­ir lét­ust.

3. maí 1943.
Banda­rísk sprengjuflug­vél fórst í Fagra­dals­fjalli á Reykja­nesi. Fjór­tán lét­ust.

14. apríl 1942. Hreyf­ill Waco-flug­vél­ar stöðvaðist í flug­taki frá Reykja­vík­ur­flug­velli og nauðlend­ing tókst illa. Tveir lét­ust.

27. júní 1920. Barn hljóp fyr­ir flug­vél sem var í flug­taks­bruni á Reykja­vík­ur­flug­velli og lést.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert