Flugslysið hörmulega við flugvöllinn í Múlakoti í Fljótshlíð á sunnudagskvöld var fyrsta mannskæða flugslysið sem orðið hefur hér á landi frá árinu 2015 og sjöunda banaslysið í flugi sem á sér stað á Íslandi frá aldamótum. Það er jafnframt hið mannskæðasta sem orðið hefur frá Skerjafjarðarslysinu um verslunarmannahelgina árið 2000, sem heimti sex mannslíf.
Færri banaslys hafa orðið í flugi á fyrstu tveimur áratugum 21. aldar en raunin var á síðari hluta 20. aldar. Ekkert banaslys varð í flugi íslenskskráðra loftfara á árunum 2001-2008, sem er einsdæmi, en árið 2001 fórst þó bandarísk einkaflugvél út af Suðurlandi.
Fara þarf aftur til áranna 1953-1955 til þess að finna næsta dæmi um að enginn látist í flugslysum íslenskra loftfara þrjú ár í röð, en árið 1953 fórst þó bandarísk herflugvél á Mýrdalsjökli.
Á síðasta ári bárust flugsviði rannsóknarnefndar samgönguslysa alls 2.984 tilkynningar um flugatvik, alvarleg flugatvik og flugslys og hefur fjöldi slíkra tilkynninga aukist mjög undanfarinn áratug og eru tilkynningar nú rúmlega fjórum sinnum fleiri en þær voru árið 2007.
Þetta kemur fram í ársyfirliti rannsóknarnefndarinnar, sem kom út í janúar á þessu ári, en tekið er fram að þessa aukningu þurfi ekki endilega að rekja til þess að öryggi í flugi sé að rýrna, heldur þvert á móti til þess að tilkynningarskyldir aðilar séu orðnir duglegri að skila inn tilkynningum um flugatvik en áður, auk þess sem flugumferð hafi aukist.
Á árinu 2018 var ekkert mál skráð sem flugslys, sem rannsóknarnefndin segir að verði að teljast nokkuð sérstakt, enda hafði það ekki gerst allt frá árinu 1969.
Listinn er ekki tæmandi.
9. júní 2019. Piper PA-23 einkaflugvél, skráð í Bandaríkjunum, brotlenti við flugvöllinn í Múlakoti í Fljótshlíð. Þrír létust og tveir liggja alvarlega slasaðir á Landspítala.
12. nóvember 2015. Tecnam-kennsluflugvél frá Flugskóla Íslands brotlenti í Kapelluhrauni. Tveir létust.
9. ágúst 2015. Einkaflugvél hrapaði í Barkárdal. Einn lést.
5. ágúst 2013. Sjúkraflugvél Mýflugs brotlenti á aksturíþróttasvæðinu við Hlíðarfjallsveg á Akureyri. Tveir létust.
20. október 2012. Fisvél hrapaði á Reykjanesi eftir að hafa ofrisið. Tveir létust.
2. júlí 2009. Cessna-einkaflugvél flaug á rafmagnslínu í Selárdal. Einn lést.
6. mars 2001. Tveggja hreyfla bandarísk flugvél fórst undan Suðurlandi. Tvær létust.
7. ágúst 2000. Cessna T210L flugvél á vegum Leiguflugs Ísleifs Ottesen hrapaði í sjóinn í Skerjafirði. Sex létust.
10. ágúst 1998. Flugvél þýskra feðga lenti á klettabelti á Vesturhorni nærri Höfn í Hornafirði. Þrír létust.
14. september 1997. Þyrla frá Þyrluþjónustunni brotlenti í fjallshlíð inn af Hamarsfirði. Einn lést.
5. apríl 1997. Yak-52 einkaflugvél hrapaði skammt utan við Straumsvík eftir listflugsæfingar. Tveir létust.
14. september 1995. Vél flugskólans Flugtaks brotlenti í Glerárdal. Þrír létust.
8. júlí 1995. Svifflugvél ofreis eftir flugtak á Melgerðismelum í Eyjafirði og hrapaði til jarðar. Einn lést.
30. júní 1995. Einkaflugvél fórst í Geitahlíð, skammt sunnan við Kleifarvatn. Einn lést.
28. ágúst 1994. Cessna-flugvél hrapaði við Borgarnes. Tveir létust.
7. ágúst 1993. Vélsviffluga hrapaði til jarðar á Sandskeiði. Einn lést.
3. júlí 1992. Flugvél fórst í Hekluhrauni, á leið frá Þórsmörk til Reykjavíkur. Einn lést.
23. desember 1990. Sviffluga hrapaði til jarðar í Eyjafirði eftir að annar vængur hennar brotnaði af í flugæfingum. Einn lést.
3. desember 1990. Cessna-flugvél fórst á Mosfellsheiði. Einn lést.
13. október 1990. Flugvél fórst í Skerjafirði eftir að báðir hreyflar stöðvuðust. Einn lést.
16. júlí 1990. Paper PA-28 flugvél flaug á háspennulínu í Ásbyrgi í Kelduhverfi. Einn lést.
30. júlí 1989. Cessna-flugvél spann til jarðar úr lágflugi við Torfastaði í Biskupstungum. Einn lést.
23. júlí 1987. Piper PA-28 flugvél fórst rétt eftir flugtak frá Blönduósflugvelli. Fjórir létust.
31. janúar 1987. Piper Chieftain-flugvél frá Flugfélaginu Erni lenti í sjónum í mynni Skutulsfjarðar í Ísafjarðardjúpi. Einn lést.
17. júní 1986. Maule-flugvél spann til jarðar í aðflugi að Flúðaflugvelli. Einn lést.
5. apríl 1986. Piper PA-23 flugvél Flugfélagsins Ernis brotlenti í Ljósufjöllum á Snæfellsnesi. Fjórir létust.
31. janúar 1986. Zenith-flugvél fórst á skíðasvæðinu í Bláfjöllum. Tveir létust.
8. nóvember 1983. Þyrla Landhelgisgæslu Íslands fórst í Jökulfjörðum. Fjórir létust.
22. október 1983. Farþegi gekk í skrúfu flugvélar á Reykjavíkurflugvelli, eftir flug frá Egilsstöðum.
25. apríl 1983. Cessna-flugvél fórst í Hvalfirði. Tveir létust.
26. október 1982. Flugvél týndist í hafi út af Arnarfirði, í sjónflugi frá Suðureyri til Ísafjarðar. Einn lést.
20. júlí 1982. Piper PA-23 flugvél flaug á Kistufell í Esju í aðflugi til Reykjavíkurflugvallar eftir flug frá Egilsstöðum. Fimm létust.
5. júlí 1982. Farþegi lést er hann gekk í skrúfu Cessna-flugvélar eftir lendingu á Sandskeiði.
4. október 1981. Rallye-100 flugvél fórst í lendingaræfingum á Helluflugvelli.
27. maí 1981. Rockwell-flugvél fórst við Þverárvötn á Tvídægru, á leið frá Reykjavík til Akureyrar. Fjórir létust.
22. september 1980. BN-2A Islander-flugvél flaug á fjallshlíð í Smjörfjöllum á leið frá Þórshöfn til Egilsstaða. Fjórir létust.
17. febrúar 1980. Flugvél spann til jarðar rétt eftir flugtak af flugvellinum í Húsafelli. Einn lést.
8. nóvember 1979. Citabria-vél flaug á raflínu í lágflugi í Borgarfirði. Tveir létust.
25. apríl 1977. Hughes-þyrla flaug í jörðu á Mælifellssandi norðan Mýrdalsjökuls og eyðilagðist. Tveir menn urðu úti.
17. janúar 1975. Sikorsky-þyrla fórst við Hjarðarnes í Hvalfirði á leið frá Reykjavík til Vegamóta. Sjö fórust.
2. júní 1974. Beech-flugvél fórst í Svínadal í Dölum, á leið frá Stykkishólmi til Reykjavíkur. Fjórir létust.
15. júlí 1973. Mooney M-20 flugvél flaug á fjallshlíð og fórst í Snjófjöllum, á leið frá Reykjavík til Þórshafnar.
26. mars 1973. Beech-flugvél fórst í Búrfjöllum norðaustan Langjökuls, á leið frá Akureyri til Reykjavíkur. Fimm létust.
4. júní 1972. Maður gekk í skrúfu flugvélar og beið bana á Akranesflugvelli.
19. mars 1972. Vasama-vél stakkst til jarðar eftir vírslit í flugtogi á Sandskeiði. Einn lést.
30. júlí 1971. Cessna-flugvél spann í jörðu í lágflugi í Vogum á Vatnsleysuströnd. Einn lést.
10. júlí 1969. Þyrla frá bandaríska varnarliðinu hrapaði við bæinn Hvamm undir Eyjafjöllum. Einn lést.
15. júlí 1968. Piper PA-28 flugvél spann til jarðar á Brunnhæð við Látrabjarg, í sjónflugi til Ísafjarðar. Fjórir létust.
19. febrúar 1968. Piper PA-30 flugvél spann í jörð á Reykjavíkurflugvelli eftir bilun í hreyfli í flugtaki. Tveir létust.
3. október 1967. Flugvél týndist í hafi í sjónflugi á leið frá Húsavík til Reykjavíkur. Einn lést.
31. júlí 1967. Farþegi gekk í skrúfu Cessna-flugvélar á Reykjavíkurflugvelli og lést.
31. maí 1967. Piper PA-28 flugvél flaug í sjóinn á Viðeyjarsundi, skammt undan Gufunesi. Einn lést.
3. maí 1967. DC-3 flugvél Flugsýnar fórst við lendingu í Vestmannaeyjum. Þrír létust.
18. janúar 1966. Beech-sjúkraflugvél fórst út af Norðfjarðarhorni í aðflugi til Norðfjarðar frá Reykjavík. Tveir létust.
1. maí 1965. Þyrla frá bandaríska varnarliðinu fórst á Vatnsleysuströnd. Fimm létust.
13. ágúst 1964. Cessna-flugvél flaug á Litla-Meitil í Þrengslum í sjónflugi frá Vestmannaeyjum til Reykjavíkur. Einn lést.
16. maí 1962. Piper J-3 flugvél hrapaði til jarðar í æfingaflugi flugnema við Korpúlsstaði. Einn lést.
24. apríl 1959. Cessna-flugvél fórst í Sátudal á Snæfellsnesi, í sjúkraflugi frá Skagafirði til Reykjavíkur. Þrír létust.
4. janúar 1959. Cessna-flugvél fórst í Bíldsárskarði á Vaðlaheiði á leið frá Laugum til Akureyrar. Fjórir létust.
29. mars 1958. Cessna-flugvél fórst á Öxnadalsheiði á leið frá Reykjavík til Akureyrar. Fjórir létust.
12. febrúar 1956. Fleet Finch-flugvél fórst á Holtavörðuheiði í sjónflugi frá Akureyri til Reykjavíkur. Einn lést.
15. desember 1953. Herflugvél frá bandaríska varnarliðinu brotlenti á Mýrdalsjökli. Átta létust.
5. mars. 1952. Piper J-3 flugvél flaug á símastaur við Sandskeið. Einn lést.
31. janúar 1951. Dakota-flugvél Flugfélags Íslands hrapaði í Faxaflóa í aðflugi að Reykjavíkurflugvelli. 20 létust.
27. mars 1948. Pratt & Reed-flugvél lenti á húsi eftir að togvír slitnaði í flugtogi af Reykjavíkurflugvelli. Tveir létust.
7. mars 1948. Avro Anson V flugvél flaug á Skálafell á Hellisheiði, á leið til Vestmannaeyja frá Reykjavík. Fjórir létust.
31. maí 1947. Luscombe-flugvél fórst í æfingaflugi nálægt Varmadal í Mosfellssveit. Tveir létust.
29. maí 1947. Douglas DC-3 flugvél Flugfélags Íslands flaug á Hestfjall í Héðinsfirði. Mannskæðasta flugslys sem orðið hefur á Íslandi. 25 létust.
13. mars 1947. Flugbátur Loftleiða hlekktist á í flugtaki á Hvammsfirði, þaðan sem vélin var að hefja sig á loft frá Búðardal. Fjórir létust.
3. maí 1943. Bandarísk sprengjuflugvél fórst í Fagradalsfjalli á Reykjanesi. Fjórtán létust.
14. apríl 1942. Hreyfill Waco-flugvélar stöðvaðist í flugtaki frá Reykjavíkurflugvelli og nauðlending tókst illa. Tveir létust.
27. júní 1920. Barn hljóp fyrir flugvél sem var í flugtaksbruni á Reykjavíkurflugvelli og lést.