Sló íslandsmet og hljóp 44 km á fjöllum

Íslenska landsliðið í utanvegahlaupum. Efri röð frá vinstri: Örvar Steingrímsson, …
Íslenska landsliðið í utanvegahlaupum. Efri röð frá vinstri: Örvar Steingrímsson, Sigurjón Ernir Sturluson, Ingvar Hjartarson og Þorbergur Ingi Jónsson. Neðri röð frá vinstri: Anna Berglind Pálmadóttir, Rannveig Oddsdótir, Þórdís Hrafnkelsdóttir og Melkorka Árný Kvaran. Ljósmynd/Aðsend

Landslið Íslands í ut­an­vega­hlaup­um lagði land und­ir fót í síðustu viku og tók þátt í heims­meist­ara­mót­inu í grein­inni, Trail world champ­i­ons­hips 2019. Keppn­in fór fram í Coimbra í Portúgal. Braut­in sem var hlaup­in var 44 kíló­metr­ar að lengd, og var ein sú tækni­lega erfiðasta sem hef­ur verið hlaup­in á heims­meist­ara­móti, að sögn Önnu Berg­lind­ar Pálma­dótt­ur, eins ís­lensku hlaupagarp­anna.

Viku áður en hún kom fyrst ís­lenskra kvenna í mark á heims­meist­ara­mót­inu í ut­an­vega­hlaup­um bætti hún Íslands­metið í sín­um ald­urs­flokki í 5 kíló­metra götu­hlaupi um heil­ar 23 sek­únd­ur. 

Hlaupagarpurinn Anna Berglind brosir og spennir byssurnar í miðju hlaupi …
Hlaupagarp­ur­inn Anna Berg­lind bros­ir og spenn­ir byss­urn­ar í miðju hlaupi í Portúgal. Ljós­mynd/​Aðsend

Klöngruðust yfir grjót og beygðu sig und­ir tré

„Við fór­um sem sagt átta, fjór­ir karl­ar og fjór­ar kon­ur, og hlup­um þetta hlaup sem var 44 kíló­metr­ar á fjöll­um með 2.200 hæðarmetr­um. Braut­in var rosa­lega flott en mjög tækni­lega erfið. Það var sagt að þetta væri svona tækni­lega erfiðasta braut­in sem hef­ur verið á þess­um mót­um.“ Spurð hvað það hafi verið sem gerði braut­ina svo erfiða svar­ar Anna: „Stíg­arn­ir eru til dæm­is mikið grýtt­ir. Þá er maður að klöngr­ast yfir stór grjót og beygja sig und­ir tré og jafn­vel að brölta upp þannig að maður þarf að halda í keðjur og annað til að kom­ast áleiðis. Þannig að þó að braut­in hafi verið á köfl­um hlaup­an­leg þá var hún á stór­um köfl­um mjög tor­fær.“

Hóp­ur­inn sem út fór er eins og áður seg­ir landslið Íslands í ut­an­vega­hlaup­um, þó að keppn­in telj­ist bæði sem ein­stak­lings- og liðakeppni. „Við kepp­um sem sagt bæði sem ein­stak­ling­ar og röðumst í sæti sem slík­ir,“ seg­ir Anna en bæt­ir við að einnig sé raðað í sæti eft­ir gengi liðsins í heild. „Ísland var að stór­bæta sig í liðakeppni miðað við sein­ustu ár.“

„Öll bara venju­legt fólk“

Eins og áður seg­ir var Anna fyrst ís­lensku kvenn­anna í mark á tím­an­um 5:17:04. „Það skilaði mér í átt­ug­asta sæti af 185 kon­um sem lögðu af stað,“ seg­ir Anna spurð um gengi henn­ar í keppn­inni og bæt­ir glöð í bragði við: „Þó svo að manni finn­ist kannski ekk­ert frá­bært að vera í átt­ug­asta sæti þá er kannski ágætt að vera fyr­ir ofan miðju á heims­meist­ara­móti samt sem áður.“ Þá seg­ir hún að þeir kepp­end­ur sem raðast í efstu tug­ina af sæt­un­um séu meira og minna at­vinnu­fólk. „Við [Íslend­ing­arn­ir] erum öll bara venju­legt fólk sem er í vinnu og hlaup­um bara í frí­tím­an­um.“

Eins og sjá má af leggjunum á konunum var leiðin …
Eins og sjá má af leggj­un­um á kon­un­um var leiðin ekki alltaf greið. Blóð og sviti er gefið með bros á vör á heims­meist­ara­mót­inu í ut­an­vega­hlaup­um. Ljós­mynd/​Aðsend

„Það er rosa­leg­ur upp­gang­ur í ut­an­vega­hlaup­um í heim­in­um svo mót­in verða sterk­ari og sterk­ari með hverju ár­inu,“ seg­ir Anna um um­rætt heims­meist­ara­mót sem hef­ur hingað til verið haldið ár­lega, en nú verður gerð sú breyt­ing á að mótið verður haldið annað hvert ár. Kepp­end­urn­ir í ár komu frá 53 lönd­um og seg­ir Anna aðspurð að þær þjóðir sem eiga oft sterk­ustu fjalla­hlaup­ar­ana séu til dæm­is Frakk­ar og Spán­verj­ar. 

„Stærstu þjóðirn­ar eru yf­ir­leitt Frakk­ar og Spán­verj­ar. Svo eru reynd­ar Bret­ar, Banda­ríkja­menn og Ítal­ir mjög sterk­ir. Í ein­stak­lings­flokk­um voru það frönsk stelpa og bresk­ur maður sem sigruðu.“

Vill ekki velja á milli

Eins og áður seg­ir sló Anna Íslands­metið í ald­urs­flokki henn­ar í fimm kíló­metra götu­hlaupi helg­ina áður en hún fór út til Portúgal. Spurð um þetta, og hvort flest­ir ein­beiti sér ekki frek­ar að ann­arri grein­inni en báðum seg­ir hún: „Það er nú þannig að hlaup­ar­ar sér­hæfa sig yf­ir­leitt svo­lítið, og eru þá annaðhvort góðir fjalla­hlaup­ar­ar eða ein­beita sér að götu­hlaup­um og ein­beita sér að ein­hverj­um vega­lengd­um þar. Mér finnst þetta allt svo skemmti­legt að ég á erfitt með að tak­marka mig við eitt­hvað.“ Þá seg­ir hún um aðdrag­and­ann að því að hún reyndi við um­rætt Íslands­met: „Ég verð fer­tug núna í lok mánaðar­ins og ég sá að ég væri kannski al­veg lík­leg til að ná þessu Íslands­meti í ald­urs­flokkn­um 35-39 ára. Þá hafði ég auðvitað ekki lang­an tíma til stefnu þannig að ég ákvað að „bomba“ á það þarna viku fyr­ir.“
Átján mín­út­ur og tutt­ugu sek­únd­ur var tím­inn, og bætti Anna því Íslands­metið um 23 sek­únd­ur. 

Blaðamaður spyr hvort það hafi eng­in áhrif á fjalla­hlaup­in að vera í götu­hlaup­um og öf­ugt. Anna svar­ar að vissu­lega geti svo verið og seg­ir: „Sjálfsagt yrði maður betri ef maður ein­beitti sér að öðru en ekki öllu, en það er nú samt þannig að ástæðan fyr­ir því að maður er að þessu er að manni finnst þetta svo skemmti­legt. Þá er maður ekk­ert endi­lega til­bú­inn til að fórna ein­hverju ef maður get­ur haft gam­an af þessu og finnst maður vera að ná ár­angri á báðum sviðum.“

Íslenska landsliðið í fantaformi í Portúgal.
Íslenska landsliðið í fanta­formi í Portúgal. Ljós­mynd/​Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert