Sló íslandsmet og hljóp 44 km á fjöllum

Íslenska landsliðið í utanvegahlaupum. Efri röð frá vinstri: Örvar Steingrímsson, …
Íslenska landsliðið í utanvegahlaupum. Efri röð frá vinstri: Örvar Steingrímsson, Sigurjón Ernir Sturluson, Ingvar Hjartarson og Þorbergur Ingi Jónsson. Neðri röð frá vinstri: Anna Berglind Pálmadóttir, Rannveig Oddsdótir, Þórdís Hrafnkelsdóttir og Melkorka Árný Kvaran. Ljósmynd/Aðsend

Landslið Íslands í utanvegahlaupum lagði land undir fót í síðustu viku og tók þátt í heimsmeistaramótinu í greininni, Trail world championships 2019. Keppnin fór fram í Coimbra í Portúgal. Brautin sem var hlaupin var 44 kílómetrar að lengd, og var ein sú tæknilega erfiðasta sem hefur verið hlaupin á heimsmeistaramóti, að sögn Önnu Berglindar Pálmadóttur, eins íslensku hlaupagarpanna.

Viku áður en hún kom fyrst íslenskra kvenna í mark á heimsmeistaramótinu í utanvegahlaupum bætti hún Íslandsmetið í sínum aldursflokki í 5 kílómetra götuhlaupi um heilar 23 sekúndur. 

Hlaupagarpurinn Anna Berglind brosir og spennir byssurnar í miðju hlaupi …
Hlaupagarpurinn Anna Berglind brosir og spennir byssurnar í miðju hlaupi í Portúgal. Ljósmynd/Aðsend

Klöngruðust yfir grjót og beygðu sig undir tré

„Við fórum sem sagt átta, fjórir karlar og fjórar konur, og hlupum þetta hlaup sem var 44 kílómetrar á fjöllum með 2.200 hæðarmetrum. Brautin var rosalega flott en mjög tæknilega erfið. Það var sagt að þetta væri svona tæknilega erfiðasta brautin sem hefur verið á þessum mótum.“ Spurð hvað það hafi verið sem gerði brautina svo erfiða svarar Anna: „Stígarnir eru til dæmis mikið grýttir. Þá er maður að klöngrast yfir stór grjót og beygja sig undir tré og jafnvel að brölta upp þannig að maður þarf að halda í keðjur og annað til að komast áleiðis. Þannig að þó að brautin hafi verið á köflum hlaupanleg þá var hún á stórum köflum mjög torfær.“

Hópurinn sem út fór er eins og áður segir landslið Íslands í utanvegahlaupum, þó að keppnin teljist bæði sem einstaklings- og liðakeppni. „Við keppum sem sagt bæði sem einstaklingar og röðumst í sæti sem slíkir,“ segir Anna en bætir við að einnig sé raðað í sæti eftir gengi liðsins í heild. „Ísland var að stórbæta sig í liðakeppni miðað við seinustu ár.“

„Öll bara venjulegt fólk“

Eins og áður segir var Anna fyrst íslensku kvennanna í mark á tímanum 5:17:04. „Það skilaði mér í áttugasta sæti af 185 konum sem lögðu af stað,“ segir Anna spurð um gengi hennar í keppninni og bætir glöð í bragði við: „Þó svo að manni finnist kannski ekkert frábært að vera í áttugasta sæti þá er kannski ágætt að vera fyrir ofan miðju á heimsmeistaramóti samt sem áður.“ Þá segir hún að þeir keppendur sem raðast í efstu tugina af sætunum séu meira og minna atvinnufólk. „Við [Íslendingarnir] erum öll bara venjulegt fólk sem er í vinnu og hlaupum bara í frítímanum.“

Eins og sjá má af leggjunum á konunum var leiðin …
Eins og sjá má af leggjunum á konunum var leiðin ekki alltaf greið. Blóð og sviti er gefið með bros á vör á heimsmeistaramótinu í utanvegahlaupum. Ljósmynd/Aðsend

„Það er rosalegur uppgangur í utanvegahlaupum í heiminum svo mótin verða sterkari og sterkari með hverju árinu,“ segir Anna um umrætt heimsmeistaramót sem hefur hingað til verið haldið árlega, en nú verður gerð sú breyting á að mótið verður haldið annað hvert ár. Keppendurnir í ár komu frá 53 löndum og segir Anna aðspurð að þær þjóðir sem eiga oft sterkustu fjallahlauparana séu til dæmis Frakkar og Spánverjar. 

„Stærstu þjóðirnar eru yfirleitt Frakkar og Spánverjar. Svo eru reyndar Bretar, Bandaríkjamenn og Ítalir mjög sterkir. Í einstaklingsflokkum voru það frönsk stelpa og breskur maður sem sigruðu.“

Vill ekki velja á milli

Eins og áður segir sló Anna Íslandsmetið í aldursflokki hennar í fimm kílómetra götuhlaupi helgina áður en hún fór út til Portúgal. Spurð um þetta, og hvort flestir einbeiti sér ekki frekar að annarri greininni en báðum segir hún: „Það er nú þannig að hlauparar sérhæfa sig yfirleitt svolítið, og eru þá annaðhvort góðir fjallahlauparar eða einbeita sér að götuhlaupum og einbeita sér að einhverjum vegalengdum þar. Mér finnst þetta allt svo skemmtilegt að ég á erfitt með að takmarka mig við eitthvað.“ Þá segir hún um aðdragandann að því að hún reyndi við umrætt Íslandsmet: „Ég verð fertug núna í lok mánaðarins og ég sá að ég væri kannski alveg líkleg til að ná þessu Íslandsmeti í aldursflokknum 35-39 ára. Þá hafði ég auðvitað ekki langan tíma til stefnu þannig að ég ákvað að „bomba“ á það þarna viku fyrir.“
Átján mínútur og tuttugu sekúndur var tíminn, og bætti Anna því Íslandsmetið um 23 sekúndur. 

Blaðamaður spyr hvort það hafi engin áhrif á fjallahlaupin að vera í götuhlaupum og öfugt. Anna svarar að vissulega geti svo verið og segir: „Sjálfsagt yrði maður betri ef maður einbeitti sér að öðru en ekki öllu, en það er nú samt þannig að ástæðan fyrir því að maður er að þessu er að manni finnst þetta svo skemmtilegt. Þá er maður ekkert endilega tilbúinn til að fórna einhverju ef maður getur haft gaman af þessu og finnst maður vera að ná árangri á báðum sviðum.“

Íslenska landsliðið í fantaformi í Portúgal.
Íslenska landsliðið í fantaformi í Portúgal. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert