Úrkoma á landinu hefur aðeins mælst 1,9 mm það sem af er júnímánuði, sú næstminnsta sömu daga á öldinni. Sjónarmun þurrara var sömu daga árið 2012.
Þetta kemur fram á vef Trausta Jónssonar veðurfræðings, Hungurdiskum, en þurrt hefur verið um nær allt land. Miðast færsla hans við 10. júní.
Árin 1924 og 1935 mældist engin úrkoma í Reykjavík fyrstu tíu daga júnímánaðar. Aðeins ellefu sinnum hefur úrkoma mælst minni en nú. Á Akureyri hefur úrkoma mælst 3,0 mm, langt neðan meðallags.
Það sem af er júní hefur verið bjart og þurrt syðra, en svalara nyðra að því er segir í færslu Trausta. Meðalhiti í Reykjavík 8,9 stig, en 5,9 stig á Akureyri.