Gera stjórnsýsluúttekt á barnaverndarnefnd

Barnaverndarnefnd Seltjarnarness er sökuð um vanrækslu í máli stúlku sem …
Barnaverndarnefnd Seltjarnarness er sökuð um vanrækslu í máli stúlku sem búsett er í bæjarfélaginu. mbl.is/Golli

Samþykkt var á fundi bæjarstjórnar Seltjarnarness í gær, að tillögu Samfylkingarinnar, að vinna stjórnsýsluúttekt á starfi barnaverndar bæjarfélagsins. 

Stöð 2 greindi frá því fyrr í mánuðinum að feðgin hafa sent inn beiðni til Barna­vernd­ar­stofu þar sem óskað er eft­ir því að gerð verði út­tekt á barna­vernd­ar­nefnd Seltjarn­ar­nes­bæj­ar og störf­um henn­ar vegna meintr­ar van­rækslu henn­ar í máli stúlk­unn­ar. Feðgin­in fara jafn­framt fram á að Seltjarn­ar­nes­bær viður­kenni bóta­ábyrgð því nefnd­in hafi átt að vera meðvituð um van­ræksl­una.

Stúlk­an, sem er 16 ára, hef­ur búið hjá móður sinni, sem er með geðhvörf og glím­ir við áfeng­is­vanda. Í gegn­um tíðina hafa barna­vernd­ar­nefnd Seltjarn­ar­ness ít­rekað borist ábend­ing­ar um aðstæður barns­ins án þess að bregðast við með full­nægj­andi hætti.

Tillaga Samfylkingar Seltjarnarness:

Lagt til að óháður aðili verði fenginn til að vinna stjórnsýsluúttekt á Barnaverndarnefnd Seltjarness.  Lagt til að stjórnsýsla Barnaverndar síðustu 15 ára verði skoðuð til að meta hvort vinnulag og ferlar hafi verið í samræmi við góða stjórnsýsluhætti.

Unnið verði faglegt mat á núverandi skipulagi barnaverndarstarfs á Seltjarnarnesi, á barnaverndarúrræðum, starfsumhverfi, verkaskiptingu á sviðinu og vinnuferlum.  

Niðurstöður úttektarinnar verði kynntar, að því leyti sem hægt er og gerð framkvæmdaáætlun um úrbætur ef þörf er á.

Í greinargerð með tillögunni segir: 

Að undanförnu hafa komið fram alvarlegar ásakanir í garð barnaverndar Seltjarnarness. Barnaverndarnefnd hefur gríðarlega mikilvægt hlutverk í okkar samfélagi. Traust verður að ríkja til nefndarinnar og starfsmanna hennar og því nauðsynlegt að skoða og velta við öllum steinum varðandi vinnulag og ákvarðanir.

Því leggur Samfylking Seltirninga til að fengin verði óháður aðili til að vinna stjórnsýsluúttekt á barnaverndarnefnd Seltjarnarness, þar sem farið verður yfir ferla og vinnulag síðustu 15 ára, til að skoða hvort stjórnsýsla og vinnubrögð barnaverndarnefndar og starfsmanna hennar hafi verið yfir gagnrýni hafin.

Einnig verði gert faglegt mat á núverandi skipulagi barnaverndarstarfs á Seltjarnarnesi, á barnaverndarúrræðum, starfsumhverfi, verkaskiptingu á sviðinu og vinnuferlum.  

Niðurstöður úttektarinnar verði svo kynntar, að því leyti sem hægt er og gerð framkvæmdaáætlun um úrbætur ef þörf er á,“ segir í greinargerðinni en Sigurþóra Bergsdóttir og Guðmundur Ari Sigurjónsson bæjarfulltrúar Samfylkingar Seltirninga, rita undir greinargerðina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert