Gróðursettu helming rótarskotanna

Vel gekk að gróðursetja í kvöld.
Vel gekk að gróðursetja í kvöld. Ljósmynd/Nanna Guðrún Bjarnadóttir

Hópur fólks frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg og Skógræktarfélagi Íslands kom saman í kvöld nærri gatnamótum Þorlákshafnarvegar og Eyrarbakkavegar og hóf gróðursetningu trjáa í Áramótaskógi.

„Þetta gekk rosalega vel,“ segir Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi hjá Landsbjörg. „Við náðum að pota niður rúmlega helmingnum af þessum 15 þúsund plöntum sem biðu eftir að komast niður. Restin verður kláruð á næstu dögum.“

Áramótaskógur er nýr skógur þar sem gróðursett eru rótarskot sem voru á flugeldamörkuðum björgunarsveitanna undir merkjunum „Skjótum rótum“. Verkefnið fór af stað um síðustu áramót og voru viðtökur almennings mjög góðar enda seldust rótarskotin upp.

Frá gróðursetningunni.
Frá gróðursetningunni. Ljósmynd/Nanna Guðrún Bjarnadóttir

Davíð Már segir mikinn hug í fólki að halda áfram með verkefnið. „Það gladdi okkur hvað það voru margir sem komu og keyptu rótarskot sem höfðu kannski ekki verið að kaupa flugelda áður,“ segir hann og bætir við að hann sé mjög ánægður með samstarfið við Skógræktarfélag Íslands, sem annist faglega þáttinn við gróðursetninguna.

„Það eina í stöðunni er að halda áfram með þetta verkefni. Vonandi verður þetta árviss viðburður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert