Helgi Áss lætur af störfum við lagadeild

Helgi Áss Grétarsson hefur verið dósent við lagadeild Háskóla Íslands …
Helgi Áss Grétarsson hefur verið dósent við lagadeild Háskóla Íslands um árabil. Hann hefur meðal annars kennt eignarétt.

Helgi Áss Grétarsson, sem hefur verið dósent við lagadeild Háskóla Íslands, lætur af störfum í lok þessa mánaðar. Sú ráðstöfun er að frumkvæði háskólans.

Helgi segir í samtali við mbl.is að ástæðan sem honum hafi verið gefin sé sú að hann sé ekki talinn hafa verið nægilega virkur í fræðilegum rannsóknum eða við að birta ritrýndar greinar. Það valdi því að hann þurfi að láta af störfum.

Helgi segist hafa verið með lögmann í málinu og að eftirmál verði sennilega af þessari uppsögn. „Ég tel að ekki hafi verið farið eftir málsmeðferðarreglum í þessu máli,“ segir Helgi við mbl.is.

Hann segir að ákveðnar reglur gildi meðal kennara við lagadeild um hve miklar rannsóknir þeir skuli gera og hve mikið af ritrýndu efni skuli koma frá þeim og að hann hafi verið talinn brotlegur við þær reglur. Það telur hann vafamál, hins vegar. 

„Þessi starfslok eiga sér sinn aðdraganda og munu sjálfsagt eiga sín eftirmál. Síðar verður frekara ljósi varpað á þau málefni,“ segir Helgi í facebookfærslu.

Uppfært: Samkvæmt upplýsingum frá Háskóla Íslands getur rektor ekki tjáð sig um málið að svo stöddu. Málið er í ferli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert