Talsvert hefur verið um blæðingar á vegum landsins einkum í uppsveitum Árnessýslu og einnig við Þorlákshöfn á síðustu dögum. Tjaran í vegklæðningunni bráðnar í hitanum sem hefur ríkt undanfarið með þeim afleiðingum að vegurinn verður háll, hætta getur skapast og vegklæðningin skemmst auk þess festist tjaran við ökutæki.
„Þetta hefur verið vandamál undanfarið í uppsveitunum. Hitinn hefur verið svo mikill,“ segir Svanur Bjarnason svæðisstjóri á suðursvæði hjá Vegagerðinni.
Unnið hefur verið að því að dreifa sandi á malbikið meðal annars á Biskupstungnabraut og á Laugavatnsvegi. Vegkaflinn sem um ræðir er nokkrir kílómetrar.
„Þeir voru að sanda og vakta svæðið langt fram á nótt,“ segir Svanur um aðgerðir Vegagerðarinnar til að bjarga þessu. Blæðingarnar virðast helst vera á köflum þar sem lögð var ný vegklæðing í fyrra. „Þeir virðast vera eitthvað viðkvæmir fyrir hitanum í ár,” segir hann.
Spurður hvers vegna blæðir úr þessum vegköflum frekar en öðrum segist hann ekki vita nákvæmlega hvers vegna. Klæðning var unnin á á hefðbundinn hátt og engin tilraunastarfsemi í gangi, að sögn Svans. Það eina sem kemur í veg fyrir að þetta ástand skapist er að það kólni í veðri.
„Þetta er verk sem við höldum áfram að sinna næstu daga,“ segir Svanur.
Í meðfylgjandi myndskeiði sjást blæðingar úr malbiki á vegi við Þorlákshöfn.