Fjöldi tilfella álagðra vanrækslugjalda vegna ökutækis sem ekki er fært til lögbundinnar skoðunar á tilsettum tíma er hátt í 40 þúsund á ári. Lítil breyting hefur orðið á fjölda álagninga þau 10 ár sem kerfið hefur verið við lýði, en tilgangur vanrækslugjaldsins er að fækka óskoðuðum ökutækjum í umferðinni.
Rannsóknarnefnd samgönguslysa (RNSA) segir gjaldið ekki ná tilgangi sínum því hægt sé að greiða það án þess að færa ökutækið til skoðunar á ný. Hefur RNSA nú beint þeirri tillögu til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins að taka til endurskoðunar viðurlög við að vanrækja skoðunarskyldu ökutækja.
Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, segir það vera „mjög furðulega ráðstöfun“ að hægt sé að greiða vanrækslugjald án þess að fara með viðkomandi ökutæki í skoðun. „Umferðin er ekki einkamál hvers og eins,“ segir hann í umfjöllun um mál þetta í Morgublaðinu í dag.
Sýslumaðurinn á Vestfjörðum annast álagningu og innheimtu vanrækslugjalds, sem er 15.000 krónur. Jónas Guðmundsson sýslumaður segir embættið innheimta eina milljón vegna vanrækslugjalda á degi hverjum, en að mati hans ætti að koma til greina að endurskoða gjaldið með hækkun í huga.