Tæplega 5.600 umsóknir um grunnnám bárust Háskóla Íslands fyrir skólaárið 2019-2020. Jafngildir það tæplega 13% fjölgun milli ára og er fjölgunin umtalsvert meiri en fjölgun þeirra sem ljúka stúdentsprófi í ár. Heildarfjöldi umsókna um grunn- og framhaldsnám var nærri níu þúsund að þessu sinni og komu um 1.200 þeirra umsókna frá erlendum nemendum. Aðsókn í kennaranám eykst líka töluvert milli ára og sama má segja um umsóknir um nám í hjúkrunarfræði, sálfræði, tilteknar verkfræðigreinar og félagsráðgjöf.
Samanlagður fjöldi umsókna um grunnnám nú í vor var 5.570 og eru rétt um 630 fleiri umsóknir en í fyrra. Sé horft tvö ár aftur í tímann nemur fjölgun umsókna um 25%.
Rúmlega þúsund umsóknir bárust félagsvísindasviði og sem fyrr er viðskiptafræði vinsælasta greinin innan sviðsins, en rúmlega 400 vilja hefja nám í greininni í haust.
Heilbrigðisvísindasvið fékk hátt í 1.700 umsóknir, en inni í þeirri tölu eru rúmlega 420 nemendur sem þreyttu inntökupróf í læknisfræði og sjúkraþjálfun við læknadeild Háskóla Íslands fyrir helgi. Í læknisfræði verða teknir inn 54 nemendur og 35 í sjúkraþjálfun. Sálfræði er sem fyrr vinsælasta einstaka námsgreinin á sviðinu, en sléttar 400 umsóknir bárust um námið sem er nærri fimmtungsfjölgun milli ára. Þá stefna 273 á nám í hjúkrunarfræði og fjölgar umsóknum um 55% milli ára.
Hugvísindasviði bárust á tólfta hundrað umsóknir um nám. Þar er, líkt og áður, íslenska sem annað mál vinsælasta greinin, en alls reyndust umsóknirnar nærri 390 í annaðhvort BA-nám eða styttra hagnýtt nám í greininni. Rúmlega 400 manns sækjast svo eftir að hefja nám í einhverjum þeirra fjölmörgu tungumála sem í boði eru.
Rúmlega 800 umsóknir bárust svo menntavísindasviði og fjölgaði umsóknum um grunnskólakennaranám um 45% milli ára og þá fékk verkfræði- og náttúruvísindasvið tæplega 950 umsóknir að þessu sinni og fjölgaði umsóknum í rafmagns- og tölvuverkfræði um 50%.
Uppfært 13:11
Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar sagði að í tilkynningu Háskólans kæmi fram að umsækjendur um grunnnám væru fleiri en útskriftarnemar framhaldsskóla. Hið rétta er að umsækjendum um grunnnám hefur fjölgað meira en sem nemur fjölgun útskriftarnema framhaldsskóla.