Víkingahátíð fór vel af stað

Hátíðarsvæðið var opnað óvenjusnemma í dag og fengu leikskólabörn og …
Hátíðarsvæðið var opnað óvenjusnemma í dag og fengu leikskólabörn og börn á leikjanámskeiðum að njóta góðs af. mbl.is/Arnþór

„Þetta hefur gengið alveg frábærlega. Það er reyndar alveg sama hvað maður gerir þegar veðrið er svona gott, þá getur það ekki annað en gengið frábærlega,“ segir Hafsteinn Kúld Pétursson, jarl víkingafélagsins Rimmugýgs sem stendur fyrir Víkingahátíðinni í Hafnarfirði sem hófst í dag.

Á Víðistaðatúni verður þétt dagskrá alla helgina og meðal annars boðið upp á víkingabardaga og víkingaleiki, auk þess sem hljómsveitin Kráka, sem er fræg í víkingaheiminum, spilar miðaldatónlist og skapar skemmtilegt andrúmsloft, að sögn Hafsteins.

„Fimmtudagur er auðvitað virkur dagur en það hefur samt verið rosalega margt fólk hér í dag, en við höfum sett þetta upp með aðeins öðru sniði og hófum daginn fyrr og buðum leikskólum og leikjanámskeiðum að koma,“ segir Hafsteinn, en bætir því við að auðvitað þurfi ekki neitt sérstakt boð því frítt sé inn á svæðið.

„Að öðru leyti er allt komið vel á veg og svæðið lítur vel út,“ segir Hafsteinn að lokum, en hann býst við enn fleiri gestum um helgina, nema auðvitað ef góða veðrið reki alla í bústað eða útilegu.

mbl.is/Arnþór
mbl.is/Arnþór
mbl.is/Arnþór
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert