Umhverfis- og auðlindaráðuneytið leggur til að áfengisveitingar verði heimilar í takmörkuðu magni við baðstaði í náttúrunni. Tillagan nær þó ekki til baðstaða þar sem enginn rekstur fer fram. Hún er nú í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum og gefst hverjum sem er kostur á að senda inn umsögn um tillöguna.
Lagðar eru til breytingar á reglugerð um baðstaði í náttúrunni annars vegar og hollustuhætti á sund- og baðstöðum hins vegar, en í skýringum með tillögunum í samráðsgátt segir að tillagan varði veitingaþjónustu á baðstöðum, svo sem í afþreyingarlaugum.
„Baðstaðir í náttúrunni, eins og t.d. Bláa lónið, hafa um árabil boðið upp á takmarkaðar veitingar á baðsvæðum og hefur þar verið farið eftir þeim verklagsreglum sem fram koma í starfsleyfi. Lagt er til að kveðið verði á um í reglugerðinni að heimilt sé að veita áfengi í takmörkuðu magni á baðstað og að fjallað verði um það í öryggisreglum og starfsleyfi,“ segir þar enn fremur.
Lagt er til að áfengisveitingar á baðstöðum takmarkist við veitingar í margnota umbúðum eða margnota glösum.