Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi fjármálaráðherra, hefur dregið umsókn sína um stöðu seðlabankastjóra til baka og ritað Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra bréf þar sem hann gagnrýnir að hæfisnefnd sem metur umsækjendur um stöðuna horfi ekki til þess að sú stefna hafi verið mörkuð að sameina Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið.
Þetta staðfestir Benedikt í samtali við mbl.is, en Fréttablaðið greindi frá efni bréfs hans til forsætisráðherra í morgun. Í bréfinu segir hann að það hafi komið honum á óvart, er hann mætti í viðtal hjá hæfisnefnd og fékk að heyra að nefndin myndi aðeins miða sína umsögn við starfið eins og það hefur verið og ekki líta til þeirra breytinga sem boðaðar hafa verið.
„Það er verið að gera einhverja stærstu breytingu sem hefur verið gerð á stjórnkerfinu og örugglega stærstu breytingu sem þessi ríkisstjórn gerir. Hún á að taka gildi næstu áramót, formlega, og það er verið að afgreiða hana í þinginu þessa dagana. Á sama tíma er hæfisnefnd að starfa eins og ekkert hafi breyst,“ segir Benedikt.
Í bréfi sínu til forsætisráðherra skrifaði Benedikt þó að formaður hæfisnefndarinnar hefði sagt við hann að Katrín myndi mögulega horfa til annarra þátta en hæfisnefndin miði við.
„Því má spyrja til hvers er nefnd sem á að vera ráðherranum til aðstoðar, ef hann notar svo allt önnur viðmið?“ skrifar Benedikt, sem telur vinnubrögðin við stöðuveitinguna ekki sæmandi og segist ekki „vilja taka þátt í þeim leik“.
Hann segir í samtali við blaðamann að hann hafi sóst eftir starfinu vegna þeirrar eðlisbreytingar sem fyrirsjáanlegt er að sé að verða á starfi seðlabankastjóra og talið sína styrkleika nýtast vel til þess að leiða þær breytingar sem verða er stofnanirnar sameinast.
„Það er náttúrulega allt annað að vera með einn aðalbankastjóra og svo með marga varabankastjóra, hvern yfir sínu sviði, eins og er hluti af þessu frumvarpi og yfir breyttri stofnun sem þarf að fara í gegnum miklar breytingar á sínu fyrsta skeiði. Það var þarna sem ég sá mína styrkleika vera mikla gagnvart þessari stöðu, því ég hef farið í gegnum mörg svona breytingaferli á mínum ferli. Það var staðan sem ég var að sækjast eftir, ég var að ekki að líta um öxl.“