„Við erum orðnir það vanir töfum að það kemur okkur ekkert á óvart lengur,“ segir Guðni Ársæll Indriðason, formaður Íbúasamtaka Kjalarness, en Skipulagsstofnun ákvað fyrr í vikunni að breikkun Vesturlandsvegar um Kjalarnes skuli háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 106/2000.
Guðni segir að gera megi ráð fyrir að framkvæmdirnar tefjist um að minnsta kosti ár í viðbót vegna ákvörðunarinnar, þar sem matsferlið feli í sér marga tímafreka þætti. „Og sú töf er ekki góð því að þetta er framkvæmd sem stóð til að fara í fyrir um áratug en sofnaði í bankahruninu, þannig að þetta er afleit staða fyrir okkur,“ segir Guðni. „Nánast allir afleggjarar hér tengjast inn á Vesturlandsveg og það er því mikilvægt fyrir okkur að fá góðan veg,“ segir Guðni. Það sé ekki síst spurning um öryggi. „Það eru fleiri þúsund bílar á dag sem fara hér um og því yrði þetta bæði samgöngu- og öryggisbót að fá þennan veg.“
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, að Vegagerðin sé að skoða úrskurðinn og að reynt verði að halda töfum á verkinu í lágmarki.