Gert er ráð fyrir að Vegagerðin muni fjarlægja um 2.270 metra af svonefndum teinagirðingum af miðeyjum milli vega í Reykjavík.
Unnið hefur verið að því frá árinu 2017 að fjarlægja slíkar girðingar eftir að banaslys varð það ár sem rekja mátti til áverka sem hlutust þegar ökumaður kastaðist úr bifreið sinni og lenti á teinagirðingu.
Jóhann Bjarni Skúlason, yfirverkstjóri við þjónustustöð Vegagerðarinnar í Hafnarfirði á suðursvæði, segir í samtali við Morgunblaðið í dag að í fyrra hafi um 2.000 metrar af teinagirðingum verið teknir niður.
Segir Jóhann Bjarni í Morgunblaðinu í dag, að lítið verði eftir af verkinu að sumri loknu, en 20 milljónum króna hefur verið veitt til þess í ár. Þá þurfi mögulega að setja netgirðingar í stað teinagirðinganna, en sums staðar standa enn girðingarstaurar eftir. Jóhann Bjarni segir að ekki hafi verið tekin ákvörðun um hvort eigi að setja þar netgirðingar á þá staura eða taka þá niður, en að það yrði lokahnykkurinn.