Ennþá eru einhver samtöl í gangi á milli Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins vegna þingloka en þau hafa hingað til ekki leitt til neinnar niðurstöðu. Frekari fundarhöld eru ekki fyrirhuguð í kvöld en málin verða áfram rædd um helgina.
Þetta segir Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is. „Menn munu tala eitthvað saman um helgina og meta stöðuna.“
Spurður hvað standi í vegi fyrir því að samkomulag náist nefnir Birgir að ýmsir þættir ráði því sem fyrst og fremst tengjast málsmeðferð vegna þriðja orkupakkans, þar á meðal tillögu um samráðsnefnd til að skoða hann betur.
Verða nýir aðilar kallaðir að samningaborðinu um helgina?
„Í þinglokasamningum þurfa menn að vera í sambandi í ýmsar áttir og það verður auðvitað þannig.“
Birgir telur stöðuna ekki hafa breyst í aðalatriðum í dag og vill ekkert segja til um hvort hann sé bjartsýnn á að samkomulag náist um helgina. „Þetta getur farið alla vega.“